Er forsætisráðherra búinn að tryggja stuðning við þessa lagasetningu í stjórnarliðinu?

Samfylkingin lýsir sig tilbúna að taka ómakið af ríkisstjórninni með frumvarpi sem heimilar ráðherra að skylda fólk sem hingað kemur í dvöl í sóttvarnarhús. Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar tilkynnti þetta er hann spurði forsætisráðherra í dag á Alþingi hvort ríkisstjórnin ætli sér að breyta sóttvarnarlögum.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra benti á að smitin sem valdi hópsýkingum nú hafi borist til landsins fyrir 1. apríl sl., bæði fyrir gildistöku reglugerðar um sóttkvíarhótel sem og fyrir gildistöku þess regluverks sem tók við af þeirri reglugerð þegar hún var dæmd ólögmæt.

„Þannig að við verðum að hafa það í huga að það er erfitt að draga of miklar ályktanir um núverandi ráðstafanir út frá þessu tiltekna smiti. En það breytir því ekki að við þurfum að sjálfsögðu að horfa til þess hvernig við getum tryggt að það regluverk sem við höfum verið með á landamærum, sem er að mörgu leyti mjög skilvirkt og gott, þ.e. tvöföld skimun, krafa um neikvætt PCR-próf og sóttkví á milli, sé virt, því að í raun og veru snúast þessi smit ekki um fyrirkomulagið sjálft heldur að fólk fylgir ekki fyrirkomulaginu. Og það er mjög miður. Það er mjög eðlilegt að við öll sem hér erum á Alþingi skynjum núna gremju hjá þeim sem leitast við að fylgja reglunum og sjá núna afleiðingar af slíkum brotum. Þess vegna var ákveðið að grípa til ráðstafana innan núverandi lagaramma. Og af því að ég var spurð að því einhvers staðar hvort löggjöfin væri einhvers konar mistök af hálfu löggjafans þá lít ég ekki svo á. Ég lít svo á að löggjafinn hafi þá talað skýrt. Þannig að fyrstu viðbrögð ríkisstjórnarinnar voru eðlilega að skoða það hvernig herða mætti rammann innan gildandi lagaramma. Það sem ég hef hins vegar sagt og sömuleiðis hæstv. heilbrigðisráðherra er að ef við metum að það sé ekki fullnægjandi þá erum við að sjálfsögðu reiðubúin að skoða breytingar á lögunum þannig að unnt sé að tryggja sem best að svona atvik endurtaki sig ekki. Það er auðvitað mikill skaði sem verður af einu svona broti og algerlega óásættanlegt hversu miklum skaða slík brot geta valdið,“ sagði hún.

„Hæstvirtur fjármálaráðherra sagði um helgina að það væru vatnaskil í baráttunni við COVID. Hvað hann átti við með því verða sennilega ein af mörgum óleysanlegu ráðgátum stjórnmálanna. Á sama tíma berast fréttir af harkalegu bakslagi – með tilkomu nýrra hópsmita. Við þurfum ekki að rifja upp atburðarrásina í kringum reglugerð ráðherra sem var dæmd ólögmæt. Í henni var gert ráð fyrir að skylda komufólk frá ákveðnum svæðum í nokkurra daga dvöl í sóttvarnarhúsi. Í kjölfar dómsins féll ríkisstjórnin frá þessum áformum sínum á landamærunum. Og virðist gæta mikillar sundrungar innan hennar um aðgerðir, þrátt fyrir yfirlýsingar forsætisráðherra um annað,“ sagði Logi í þinginu í dag.

Hann sagði stöðuna þessa: „Landamærin eru götótt og eftirlit með sóttkví er erfitt og ófullnægjandi – og á sama tíma boðar ríkisstjórnin frekari opnun 1. maí. Í gærkvöldi sagði Víðir Reynisson að hið nýjar eftirlitsreglur ríkisstjórnarinnar, til að mynda símaeftirlit, hefði ekki komið veg fyrir stöðuna sem nú er uppi. Það að skikka fólk í sóttvarnarhús við komuna til landsins væri áhrifaríkasta leiðin. En fyrst reglugerðinni skorti lagastoð – þá er nauðsynlegt að styrkja lögin. Spurningin er því sáraeinföld: Hyggst ríkisstjórnin gera það? Eða hvaða aðgerða hyggst ríkisstjórnin grípa til svo koma megi í veg fyrir að við fáum faraldurinn í fullan vöxt aftur, og aftur.“

Logi spurði forsætisráðherra einnig hve langan tíma ríkisstjórnin ætli að gefa sér til að meta hvort lagabreytinga sé þörf. „Er forsætisráðherra búinn að tryggja stuðning við þessa lagasetningu í stjórnarliðinu vegna þess að þó að hún segir sjálf í fjölmiðlum að það sé mikið samlyndi á því heimili þá veit ég ekki hvort maður á þá að sleppa því að taka mark á fjölmörgu stjórnarliðum sem segjast ekki munu styðja þetta. En Samfylkingin er tilbúin til að taka ómakið af ríkisstjórninni og við erum tilbúin með frumvarp á sóttvarnalögum sem heimilar ráðherra að skylda fólki sem hingað kemur í dvöl í sóttvarnarhús. Það byggir á tillögum Þórólfs og ég spyr því: Er hæstv. forsætisráðherra tilbúinn til að styðja slíkt frumvarp ef það kemur fram strax og er hún tilbúin til að hlusta á áfram á sérfræðinga okkar.“