Ríkisstjórnin hefur reynt að koma til móts við þá sem harðast hafa gagnrýnt þriðja orkupakkann með þingsályktunartillögu sem og fleiru sem á að taka af allan vafa um að orkuauðlindir Íslands verði undir yfirráðum Íslendinga og engra annarra.
Þetta segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra og formaður Framsóknarflokksins, í grein í Kjarnanum. Hann viðurkennir, að þrátt fyrir álit fjölmargra lögspekinga hafi ekki tekist að sannfæra meirihluta þjóðarinnar um að nóg sé að gert með þeim fyrirvörum sem kynntir hafa verið.
„Segja má að umræður um orkupakkann séu hatrammar. Er það að mörgu leyti skiljanlegt enda um eitt af fjöreggjum íslensku þjóðarinnar að ræða og líklega sú auðlind sem á eftir að skipta mestu máli fyrir lífsgæði komandi kynslóða. Það er því mikilvægt að leitað sé sáttar og niðurstöðu sem almenningur trúir og treystir að gæti hagsmuna þjóðarinnar í bráð og lengd,“ segir Sigurður Ingi, en ekki kemur fram í grein hans í hverju frekari sáttagjörð í deilunni um orkupakkann ætti að felast.
Fyrirvararnir duga ekki til
Þess er skemmst að minnast, að miðstjórn Framsóknarflokksins hefur með sérstakri samþykkt hafnað innleiðingu orkupakkans í íslenska löggjöf.
Þá hafa ýmsir áhrifamenn úr flokknum verið áberandi í andstöðunni við innleiðingu orkupakkans. Nægir þar að nefna Guðna Ágústsson fv. formann flokksins og Frosta Sigurjónsson, fv. þingmann.
Styrmir Gunnarsson, fv. ritstjóri Morgunblaðsins, segir á vef sínum í dag, að orð formanns Framsóknarflokksins sæti miklum tíðindum.
„Það fer ekki á milli mála hvað formaður Framsóknarflokksins, eins þriggja stjórnarflokka, er að segja. Hann er einfaldlega að benda á að fyrirvarar þeir, sem utanríkisráðherra hefur kynnt dugi ekki til vegna þeirrar andstöðu, sem er við málið utan þings,“ segir Styrmir.
Og hann bætir við:
„Vonandi hlusta forystumenn hinna stjórnarflokkanna tveggja á Sigurð Inga.“