Er framsókn að draga í land í stuðningi við 3. orkupakkann?

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins og samgönguráðherra. / Viljinn: Rúnar Gunnarsson.

Rík­is­stjórnin hefur reynt að koma til móts við þá sem harð­ast hafa gagn­rýnt þriðja orkupakkann með þings­á­lykt­un­ar­til­lögu sem og fleiru sem á að taka af allan vafa um að orku­auð­lindir Íslands verði undir yfir­ráðum Íslend­inga og engra ann­arra.

Þetta segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra og formaður Framsóknarflokksins, í grein í Kjarnanum. Hann viðurkennir, að þrátt fyrir álit fjöl­margra lög­spek­inga hafi ekki tekist að sann­færa meiri­hluta þjóð­ar­innar um að nóg sé að gert með þeim fyr­ir­vörum sem kynntir hafa ver­ið.

„Segja má að umræður um orku­pakk­ann séu hat­ramm­ar. Er það að mörgu leyti skilj­an­legt enda um eitt af fjöreggjum íslensku þjóð­ar­innar að ræða og lík­lega sú auð­lind sem á eftir að skipta mestu máli fyrir lífs­gæði kom­andi kyn­slóða. Það er því mik­il­vægt að leitað sé sáttar og nið­ur­stöðu sem almenn­ingur trúir og treystir að gæti hags­muna þjóð­ar­innar í bráð og lengd,“ segir Sigurður Ingi, en ekki kemur fram í grein hans í hverju frekari sáttagjörð í deilunni um orkupakkann ætti að felast.

Fyrirvararnir duga ekki til

Þess er skemmst að minnast, að miðstjórn Framsóknarflokksins hefur með sérstakri samþykkt hafnað innleiðingu orkupakkans í íslenska löggjöf.

Þá hafa ýmsir áhrifamenn úr flokknum verið áberandi í andstöðunni við innleiðingu orkupakkans. Nægir þar að nefna Guðna Ágústsson fv. formann flokksins og Frosta Sigurjónsson, fv. þingmann.

Styrmir Gunnarsson, fv. ritstjóri Morgunblaðsins, segir á vef sínum í dag, að orð formanns Framsóknarflokksins sæti miklum tíðindum.

„Það fer ekki á milli mála hvað formaður Framsóknarflokksins, eins þriggja stjórnarflokka, er að segja. Hann er einfaldlega að benda á að fyrirvarar þeir, sem utanríkisráðherra hefur kynnt dugi ekki til vegna þeirrar andstöðu, sem er við málið utan þings,“ segir Styrmir.

Og hann bætir við:

„Vonandi hlusta forystumenn hinna stjórnarflokkanna tveggja á Sigurð Inga.“