Er hagræðing Icelandair með nýju 737 MAX þotunum í uppnámi?

Alþjóðlegi flugheimurinn er í uppnámi vegna tveggja mannskæðra flugslysa á skömmum tíma, þar sem nýjar Boeing 737 MAX flugvélar hröpuðu með þeim afleiðingum að allir fórust, farþegar jafnt sem áhöfn. Icelandair Group hefur ákveðið að taka allar Boeing 737 MAX 8 flugvélar sínar úr rekstri, þrjár talsins, um óákveðinn tíma, en þar sem flug slíkra véla hefur nú verið bannað um allan heim vakna spurningar hér á landi hvort hagræðing sú sem Icelandair ætlaði að ná í rekstri sínum með þessum nýju og sparneytnari vélum sé í uppnámi.

Í tilkynningu Icelandair frá í fyrradag, sagði að félagið fylgist náið með þróun mála og vinni áfram með flugmálayfirvöldum á Íslandi, í Evrópu og Bandaríkjunum varðandi næstu skref. Frá því tilkynningin var send út, hefur enn sigið á ógæfuhliðina hjá Boeing, vélarnar hafa alls staðar verið tímabundið bannaðar og bandarísk flugmálayfirvöld telja sig hafa fengið vísbendingar um að ýmislegt kunni að hafa verið eins í flugi beggja vélanna sem fórust, sem þykir nægilegt til að taka enga áhættu og rannsaka málið frekar.

Icelandair hefur lagt út í gríðarlegan kostnað við innleiðingu nýju vélanna, það er búið að þjálfa fjölda flugmanna, fjárfesta fyrir um milljarð í nýjum og fullkomnum flughermi á Völlunum í Hafnarfirði 

Athygli vekur að í tilkynningu Icelandair kom fram, að félagið gerir ekki ráð fyrir að kyrrsetningin hafi veruleg áhrif á rekstur félagsins. Þetta hlýtur að hafa verið sent út í þeirri merkingu, að kyrrsetningin myndi vara aðeins í stuttan tíma, því Icelandair hefur lagt út í gríðarlegan kostnað við innleiðingu nýju vélanna, það er búið að þjálfa fjölda flugmanna, fjárfesta fyrir um milljarð í nýjum og fullkomnum flughermi á Völlunum í Hafnarfirði og það sem meira er; Icelandair pantaði alls sextán flugvélar af gerðinni Boeing 737 MAX en aðeins þrjár höfðu verið teknar í notkun. Félagið hugðist taka við sex nýjum vélum af þessari gerð á þessu ári, en fimm vélum á því næsta.

Sú spurning vaknar — nú þegar ljóst er að kyrrsetningin mun vara í einhvern tíma — hvort þessi áform séu öll í uppnámi og hvaða áhrif það hafi á rekstur félagsins, sem er þungur fyrir og tapið mikið.

Boeing missti stjórn á atburðarásinni

Bandarískir fjölmiðlar fjalla ítarlega um vanda Boeing vegna MAX vélanna og er flugvélaframleiðandinn risavaxni gagnrýndur harðlega fyrir að hafa brugðist seint og illa við tíðindunum.

Boeing mæltist ekki til þess að vélarnar yrðu kyrrsettar af öryggisástæðum fyrr en nær öll flugmálayfirvöld höfðu bannað flug þeirra í sinni lofthelgi og Trump Bandaríkjaforseti var búinn að senda út yfirlýsingu um tímabundið bann við notkun þeirra.

Bloomberg fréttaveitan segir að Boeing hafi misst algjörlega stjórn á atburðarásinni. Enn liggi ekki fyrir hvað olli flugslysunum tveimur, en þó sé nú búið að staðfesta að margt sé sambærilegt í slysinu á sunnudag sem varð 157 að bana og því sem varð hjá Lion Air í Indónesíu í október sl. 

Það sem þó liggi fyrir er að orðspor MAX vélanna sé í tætlum; 364 farþegar hafi farist í tveimur glænýjum þotum af þessari tegund á skömmum tíma þegar stór flugslys eru almennt fátíð.

Væntanlega muni flugvélaframleiðandinn ná að laga það sem er ekki í lagi í hugbúnaði stjórnklefa vélanna, en hversu langan tíma það taki sé ómögulegt að segja á þessum tímapunkti og skaðinn sé skeður og traust flugfarþega farið út um gluggann.