Er hápunkti faraldursins náð í Evrópu?

Alþjóða heilbrigðismálastofnunin (WHO) segir að ýmis merki séu um að Kórónuveirufaraldurinn af völdum Covid-19 sé að ná eða hafi náð hápunkti í Evrópu og staðfestum nýsmitum fari ekki lengur fjölgandi í löndum á borð við Ítalíu og Spán.

Ítalía, sem hefur orðið verst úti af öllum Evrópulöndum, tilkynnti í gær um fæst ný tilfelli í tvær vikur.

Bloomberg-fréttaveitan hefur eftir Mike Ryan hjá WHO, að vonir standi til að hápunktur sé að nást á Spáni og Ítalíu og harðar aðgerðir ýmissa ríkja Evrópu séu farnar að skila árangri.

Danski forsætisráðherrann sagði á blaðamannafundi í gær, að vonir standi til að aflétta megi ýmsum lokunum á dönsku þjóðlífi eftir páska, ef þróun mála verði áfram hagfelld næstu daga.

Ryan ítrekar að besta aðferðin til að takast á við faraldurinn sé að skima eftir smitum, finna þá sem bera veiruna og einangra þá og rekja möguleg smit, eftir fremsta megni.

Þeirri aðferð hefur einmitt verið beitt hér á landi með góðum árangri, eins og Þórólfur sóttvarnalæknir Guðnason benti á í gær.