Er Noregur að snúa baki við EES?

Umræðan um EES (Samninginn um evrópska efnahagssvæðið) í Noregi hefur tekið nýja stefnu, hjá almenningi, stjórnmálaflokkum, verkalýðsfélögum, samtökum og sérfræðingum í málefnum sem EES, að sögn Mortens Harper, rannsóknastjóra norsku samtakanna Nei við ESB (Nei til EU), sem mun flytja fyrirlestur í sal 105 á Háskólatorgi Háskóla Íslands á morgun kl. 17:30, um breytta afstöðu í Noregi til EES-samningsins.

Frá þessu segir í fréttatilkynningu Heimssýnar, hreyfingu sjálfstæðissinna í Evrópumálum.

Í fyrirlestrinum mun Harper fjalla um þróun umræðu og framkvæmdar EES-samningsins, auk hagsmunamála, eins og til dæmis þriðja orkutilskipanapakka ESB, fullveldið og EES. 

Í ágripi sem Harper hefur sett fram í tilefni af fyrirlestrinum, kemur meðal annars eftirfarandi fram:

  • Meirihluti Norðmanna er andsnúinn aðild að Evrópusambandinu (ESB). 
  • Vaxandi áhyggjur og andstaða eru vegna EES í Noregi, og hefur verið að byggjast upp hjá viðskiptaráðum, en einnig hjá almenningi og sveitarfélögum. Þetta tengist deiluefnum eins og Samstarfstofnun eftirlitsaðila á orkumarkaði (ACER), samgöngupakka um lestir og þjónustutilskipunum.
  • Samtökin Nei við ESB vilja skipta EES út fyrir nútímalega viðskiptasamninga án lýðræðishalla EES, en flest ríki sem skipta við ESB eru ekki aðilar að EES. Jafnvel áður en gengið var að EES-samningnum áttu Noregur og Ísland tollfrjáls viðskipti við ESB. 
  • Það var og er mikil andstaða almennings við orkutilskipunina og þriðja orkupakkann. Nú hefur norsku ríkisstjórninni verið stefnt fyrir dóm, vegna brots á stjórnarskrá Noregs, við valdaframsal til Eftirlitsstofnunar EFTA og ACER. Stjórnvöld hafa hafnað kröfunni, en dómstólar munu eiga lokaorðið. Búist er við að réttarhöldin fari fram í apríl eða maí nk. Yfir milljón norskum krónum (um 14 milljónir íslenskra króna) hefur verið safnað til að fjármagna málssóknina, frá einstaklingum og öðrum aðilum. 
  • Norðmenn eru ánægðir með andstöðuna við ACER á Íslandi, og með vinnuna sem hér fer fram við að verja sjálfræði á orkumarkaði. Hafni Ísland ACER, yrði meirihluti norsku þjóðarinnar þakklátur. Verði þriðji orkupakkinn ekki innleiddur í EES-löndunum, gæti Noregur gert tvíhliða samning við ESB án afskipta ACER.
  • Fjórði orkupakkinn (vetrarpakkinn) eru nýjar reglur og uppfærslur á ACER, raforkudreifingarkerfum o.s.fr.v. sem gefa ACER enn meira vald og gerir stofnunina enn yfirþjóðlegri. Reglugerðin um evrópska orkuinnviði frá 2013 er einnig stórt skref í ranga átt.
  • EES-samningurinn er orðinn talsvert öðruvísi en þegar hann var gerður og undirritaður árið 1992. Mikið áhyggjuefni er hvernig hefur molnað úr tveggja stoða kerfinu, en stofnanir ESB hafa beint eða óbeint fengið völd á Íslandi og í Noregi. Íslensk stjórnvöld hafa þegar gert við það athugasemdir, og við vonumst til þess að íslensk stjórnvöld dragi línu í sandinn. Því miður er stærsti stjórnarflokkur Noregs – Høyre – og forsætisráðherrann, Erna Solberg, miklir ESB-sinnar. 
  • Meiriháttar vandamál við EES-samninginn hefur verið að ýmsar ríkisstjórnir hafa látið það undir höfuð leggjast að beita neitunarvaldi EFTA-ríkjanna til að hafna nýjum ESB-reglum. Það er réttur sem Noregur, Ísland og Liechtenstein hafa, og ESB hefur engan rétt til að refsa þeim fyrir að nota hann. Noregur hafnaði þriðju póstþjónustutilskipuninni í tvö ár án aðgerða ESB, en ný ríkisstjórn dró það til baka.
  • Hart hefur verið deilt um sæstrengi í umræðunni um ACER, svo sem hinn fyrirhugaða sæstreng á milli Noregs og Bretlands, en innan EES getur Noregur ekki hafnað nýjum sæstreng á grundvelli þjóðarhagsmuna.