Af umræðum á samfélagsmiðlum að dæma, eftir að fréttir bárust af því að fjöldi Namibíumanna hafi verið ákærður eftir tveggja ára rannsókn Fishrot-málsins en enginn Íslendingur, hvorki einstaklingar né félög á þeirra vegum, er ljóst að margir spyrja sig þeirrar spurningar hvort farið hafi verið offari í fréttaflutningi af málinu í byrjun þegar fullyrt var að nafngreindir Íslendingar hefðu greitt mútur og gera þyrfti ávinning af margvíslegri brotastarfsemi upptækan. Að ekki sé minnst á að stokka þyrfti upp allt stjórnkerfi fiskveiða vegna málsins, hvorki meira né minna og innkalla aflaheimildir. Já og breyta stjórnarskránni. Ekki gleyma því.
Eftir Kveiksþáttinn fyrir tveimur árum og fréttaflutning í kjölfar hans, hafa margir Íslendingar eflaust búist við húsleitum og handtökum, enda fór lítið fyrir þeim möguleika í fjölmiðlum að ef til vill væru mál ekki í samræmi við frásögn Jóhannesar Stefánssonar uppljóstrara. Ekkert slíkt hefur hins vegar gerst á þeim tveimur árum sem liðin eru; Samherjaþáttur málsins verður fyrst dómtekinn á næsta ári og enn virðist málið fyrst og fremst snúa að því hvernig namibískir stjórnmála- og embættismenn fóru með það fé sem Samherji og dótturfélög greiddu fyrir veiðiheimildir; hvort þeir drógu sér hluta af því sjálfir og gáfu rétt upp til yfirvalda.
Ekki skal hér gert lítið úr málinu og spillingu þeirra sem falin var mikil ábyrgð í Namibíu, en ekkert hefur enn komið fram sem bendir til þess að málið hafi verið skipulagt á Íslandi og leitt héðan, eins og fullyrt var í upphafi. Þess vegna er vert að spyrja hvort þetta Samherjamál sé í reynd að fjara út, óháð Fishrot-málinu, enda hefur lítið hefur frést af innlendum þætti rannsóknarinnar, utan að nokkrir lykilstarfsmenn Samherja hafi réttarstöðu sakbornings, en það eitt og sér segir ekkert um framvindu málsins. Slíkt er ekki síst gert til að tryggja réttarstöðu viðkomandi, eins og Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari, hefur svo oft minnt á í opinberri umræðu.
Saksóknari í Namibíu hefur sætt gagnrýni fyrir að draga málin á langinn, bæði gagnvart löndum sínum og þeim erlendu fyrirtækjum sem um ræðir. Öllum framsalsbeiðnum gagnvart Íslendingum hefur verið hafnað, enda framsalssamningar ekki í gildi milli Íslands og Namibíu og engar ákærur verið gefnar út. Lögmenn Samherja hafa oft ýtt á að málinu sé framhaldið, svo magnað sem það er. Bendir það til þess að þeir telji fyrirtækið eða starfsmenn þess vera í vondum málum?
Varðaði stjórnarskrána ekki neitt
Einn þeirra sem undrast framgang málsins, miðað við forsendurnar sem gefnar voru í upphafi, er Björn Bjarnason fv. dómsmálaráðherra. Hann skrifar á vefs´íðu sína: „Nú eru tæp tvö ár frá því að Kveikur, fréttaskýringaþáttur ríkisútvarpsins, vefsíðan Stundin og WikiLeaks fluttu fréttir um viðskipti Samherja í Namibíu. Viðskiptunum var lýst á þann veg í ríkissjónvarpinu að hlustendur gátu ekki efast um að sekt Samherjamanna.
Ákafinn í málinu var mikill. Strax klukkan 09.00 að morgni 13. nóvember 2019, morguninn eftir að Kveikur var sýndur, vildi fréttastofa ríkisútvarpsins fá það alveg á hreint í samtali við Loga Einarsson, formann Samfylkingarinnar, hvort að hann mundi ekki örugglega taka málið upp á alþingi. Logi sagði þetta „stórpólitískt mál“ sem yrði að ræða á alþingi og hann bætti við:
„Þetta auðvitað beinir sjónum að okkar kerfi og auðlindum og mikilvægi þess að við fáum auðlindaákvæði í stjórnarskrá. Við þorum að taka umræðuna um fiskveiðistjórnunarkerfið okkar og umgengni um aðrar auðlindir. Það blasir við að þetta er stórpólítískt mál í öllum skilningi þess orðs.“
Svarið var út í hött. Þetta mál hefur aldrei snert stjórnarskrá Íslands eða auðlindastjórn við Ísland. Það snýst um ólögmæta meðferð stjórnmálamanna og embættismanna í Namibíu á fé sem félag í eigu Samherja greiddi til yfirvalda þar fyrir fiskveiðiréttindi í lögsögu landsins. Nú í vikunni að lokinni tveggja ára rannsókn málsins hafa þessir Namibíumenn og lögfræðingur þeirra, búsettur í Suður-Afríku, verið ákærðir en enginn starfsmaður Samherja.“
Og Björn bætir við:
„Þarna sannast enn að fjölmiðlamenn fara offari þegar grunsemdir um afbrot eru lagðar á borðið sem sönnun þess að einhver hafi gerst brotlegur. Hve oft skyldi orðið „ákæra“ hafa verið ranglega notuð í fréttum um þetta Fishrot-mál, eins og það heitir í Namibíu? Það er fyrst eftir rannsókn lögreglu og saksóknara sem sannanir um sekt verða tilefni ákæru. Síðan er það dómara að taka af skarið um sekt eða sýknu. Málflutningur í Fishrot-málinu í Namibíu hefst 22. janúar 2020.“
Hann bendir að lokum á skrif sín fyrir tæpum tveimur árum:
„Fjölmiðlastormurinn er rétt að byrja og enginn veit enn hvern hann fellir. Síðast þegar Samherji og fréttastofa ríkisútvarpsins lentu í sambærilegum átökum sigraði Samherji að lokum eftir margra ára stríð. Reynslan sýnir að rétt sé að spyrja að leikslokum.“ Þessi orð standa og þola enn dagsins ljós.“