Er Skúla að takast hið ómögulega? „Allt í rétta átt“

„Þetta er allt í rétta átt,“ sagði Skúli Mogensen, forstjóri og aðaleigandi WOW air, í stuttu samtali við Viljann í kvöld, en forsvarsmenn félagsins vinna nú að lokafrágangi samkomulags við helstu kröfuhafa og skuldabréfaeigendur um að breyta skuldum félagsins í hlutafé.

Þar með var hann rokinn og ekki frekari upplýsingar að fá á þessu stigi málsins.

Á kynningarfundi í kvöld var einhugur um þessa áætlun, að því er fram kemur á fréttavef Morgunblaðsins.

Kröfuhafar eignast þá 49% í miklu skuldléttara félagi og næsta skref er þá að finna fjárfesti til að skrá sig fyrir nýju fjármagni sem gæfi um leið 51% hlut í fyrirtækinu.

Fram hefur komið í Fréttablaðinu að bráðafjármagn þurfi strax upp á 40 milljónir dollara, eða um 5 milljarða íslenskra króna.

Þess er nú beðið að formleg staðfesting á samkomulagi kröfuhafanna birtist á fjárfestavef félagsins, en í stuttri tilkynningu í gær, var því heitið að frekari tíðinda yrði að vænta í dag eða kvöld.

Fyrr í dag hafði Jón Karl Ólafsson, fv. forstjóri Icelandair, sagt í samtali við útvarpsstöðina K100, að hann teldi ólíklegt að kröfu­haf­ar WOW air, eins og flug­véla­leigu­sal­ar, væru til­bún­ir að breyta kröf­um sín­um yfir í hluta­fé.

Jón Karl sagðist hins veg­ar taka ofan fyr­ir Skúla. „Hann held­ur alltaf áfram og það virðist alltaf vera ljós við end­ann á göng­un­um og það er virðing­ar­vert.“