Gengið verður til þingkosninga á Spáni 28. apríl eftir að ríkisstjórninni mistókst að fá fjárlagafrumvarp fyrir árið 2019 samþykkt. Höfuðástæða þess er ágreiningur í baklandi minnihlutastjórnar sósíalista vegna hörku hennar í garð aðskilnaðarsinna í Katalóníu.
Í spænska blaðinu El País segir mánudaginn 18. febrúar að Evrópusambandið og fjármálamarkaðir óttist ekki að þingrofið og þingkosningarnar leiði til fjármála- eða fjárlagahruns á Spáni. Brusselmenn óttist hins vegar að í fjórða stærsta hagkerfi evru-svæðisins skapist svipaður óstöðugleiki í stjórnmálum og hefur árum saman sett svip sinn á stjórnmál Ítalíu, þar sitja nú tveir uppnámsflokkar við völd, Fimmstjörnuhreyfingin (vinstri flokkur) og Bandalagið (hægri flokkur).
Til þessa hefur verið litið á stjórnvöld á Spáni sem málsvara frekari samruna innan Evrópusambandsins og án áhrifa frá öfgaflokkum. Þegar Sósíalistaflokkurinn settist að völdum á Spáni í byrjun júní 2018, skömmu eftir að uppnámsflokkarnir mynduðu stjórn á Ítalíu, sögðu embættismenn ESB: „Spánn er ekki Ítalía.“
Nú átta mánuðum síðar ganga Spánverjar að kjörborðinu í þriðja sinn á fjórum árum til að velja menn á þing. Frá því að lýðræði var innleitt á Spáni hefur engin ríkisstjórn setið skemur en fráfarandi stjórn sósíalista undir forystu Pedros Sánchez. Fjórða árið í röð hafa Spánverjar ekki staðið við tímasetningar sínar um miðlun upplýsinga um útgjöld á fjárlögum til Brussel. Þriðja árið í röð hefur reynst nauðsynlegt að framlengja fjárlög síðasta árs vegna samstöðuleysis um ný fjárlög.
Kannanir sýna að mjótt verði á munum í kosningunum 28. apríl, fylgi vinstrisinna og íhaldsmanna er svipað. Þá kæmi það í hlut nýja flokksins Vox að veita annarri hvorri fylkingunni stuðning til valda. Vox skipar sér yst til hægri og er gagnrýninn á ESB eins og svipaðir flokkar í Póllandi og Ungverjalandi.
„Mesta bráðahættan fyrir Spánverja er að þeir lendi á skeri eftir kosningarnar, takist ekki að mynda stjórn á skömmum tíma,“ sagði heimildarmaður innan ESB við blaðamann El País. „Næst er síðan ástæða til að óttast að innan Spánar vaxi andróður gegn ESB eins og við sjáum víða annars staðar. Við getum ekki útilokað að sama endurtaki sig á Spáni og gerðist á Ítalíu.“
Innan ESB eru menn „mest undrandi“ á hve hratt fylgi Vox hefur aukist í landi sem hafði sérstöðu í Evrópu þegar litið var til öflugra flokka langt til hægri með efasemdir í garð ESB. Þetta breyttist á Spáni í héraðskosningum í Andalúsíu í desember 2018 þegar Vox fékk þingmenn kjörna í fyrsta sinn og gegndi lykilhlutverki við myndun nýrrar héraðsstjórnar.
Af vardberg.is, birt með leyfi.