Er stjórnarkreppa framundan og jafnvel aðrar kosningar?

Frá fjörlegum umræðum á þingfundi. Viljinn: Rúnar Gunnarsson.

Nú þegar tæplega þrjár vikur eru til kosninga benda skoðanakannanir til að ríkissjórnin standi veikt og geti misst þingmeirihluta sinn. Ólíkar kannanir sýna ólíkar niðurstöður, en margar þeirra gefa til kynna að níu stjórnmálaflokkar geti náð tilskyldum atkvæðum til að ná mönnum á þing og gætu þingflokkarnir þá orðið fleiri en nokkru sinni í sögunni.

Á það hefur verið bent að þróun þessi sé sambærileg því sem gerst hefur á Norðurlöndunum, en þar er rík hefð fyrir minnihlutastjórnum sem varðar eru af nokkrum smærri flokkum. Hér á landi hefur hefðin á hinn bóginn verið sú, að samsteypustjórnir tveggja eða fleiri flokka verði til á grundvelli meirihluta þingsæta.

Sjálfstæðisflokkurinn mælist þessa dagana langstærsti flokkurinn, en fylgi hans er þó í sögulegu lágmarki. Aðrir flokkar dansa margir línuna kringum tíu prósenta fylgi og enn aðrir heyja baráttu fyrir því að ná inn á þing. Því er ekki að undra þótt einhverjir velti fyrir sér hversu gæfulegt verði að mynda ríkisstjórn að afloknum þessum kosningum.

Forystumenn stjórnarflokkanna hafa allir lýst því yfir, að eðlilegast sé að kanna með áframhaldandi samstarf nái ríkisstjórnin að halda velli. Takist það ekki, gæti skollið á erfið stjórnarkreppa þar sem margir flokkar hafa útilokað það fyrirfram að vinna með t.d. Sjálfstæðisflokki og Miðflokki.

Gunnar Helgi Kristinsson prófessor.

Viljinn leitaði til dr. Gunnars Helga Kristinssonar, prófessors í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, og spurði hvort við gætum verið að lenda í samskonar aðstæðum og eftir kosningarnar 1978, þar sem glundroðinn var mikill og leystist ekki fyrr en með nýjum kosningum ári síðar þar sem úrslitin urðu með öðrum hætti.

Gunnar Helgi segir að auðvitað muni úrslitin öllu ráða í þessum efnum. „Ef hægt verður að mynda stjórn með fáum flokkum sem hafa sterka innviði eru meiri líkur á að stjórnin haldi. Líkurnar minnka hins vegar eftir því sem flokkunum fjölgar og innviðir þeirra eru veikari. Stefnugrunnur skiptir auðvitað líka máli.

Núverandi ríkisstjórn er ólík hvað varðar vinstri-hægri áherslur en almennt frekar landsbyggðarmegin á hinum meginás íslenskra stjórnmála. Það þarf því að skoða fyrir hverja samsetningu sérstaklega hversu lífvænleg stjórnin getur talist.“