Erlendir aðilar á fleygiferð að skipta sér af íslenskum stjórnmálum

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra sagðist á Alþingi í dag vera hugsi yfir umræðunni um innleiðingu þriðja orkupakkans. Hann kvaðst ekki minnast þess að það hefði áður gerst, að erlendir aðilar væru „á fleygiferð að skipta sér af íslenskum stjórnmálum“. Vísaði hann þar til norskra stjórnmálaflokka og samtaka sem hefðu á stefnuskránni þar í landi að vinna gegn EES-samningnum og væru þess vegna á fullu í því að róa undir áróðri gegn þriðja orkupakkanum hér á landi í því skyni að koma EES-samstarfinu í uppnám.

„Þessir aðilar eru ekki að hugsa um íslenska hagsmuni,“ sagði Guðlaugur Þór  og fullyrti að haldið væri fram fullyrðingum sem sjaldnast, ef nokkurn tímann, standist neina skoðun.

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, spurði utanríkisráðherra hvaða hald væri í yfirlýsingu hans og orkumálaráðherra Evrópusambandsins um fyrirvara gagnvart raforkumarkaði ESB, sem kynnt væri við framlagningu málsins á þingi.

Svokölluð pólitísk yfirlýsing

Guðlaugur Þór svaraði því til að um væri að ræða sameiginlega yfirlýsingu beggja aðila, „svokölluð pólitísk yfirlýsing, sem ég tel gagnlega í umræðunni. Hún er hvorki meira né minna en það. Því hefur aldrei verið haldið fram á neinu stigi máls að hún sé neitt annað en nákvæmlega það,“ sagði hann.

Inga sagði þá að komið væri á hreint að um hefði verið að ræða óformlegt samtal, en ekki formlegan fyrirvara sem fastur væri í hendi. Um ásakanir ráðherrans um norska íhlutun í íslensk innanríkismál, sagði hún að Norðmenn séu almennt mjög ósáttir við stórhækkað raforkuverð. „Það veit ég að íslenskir neytendur yrðu líka,“ bætti hún við.