
Uppstillinganefnd Miðflokksins í Suðurkjördæmi hefur ákveðið að stilla upp Ernu Bjarnadóttur hagfræðingi í 2. sætið á framboðslista flokksins fyrir komandi þingkosningar í haust. Þá er ljóst að Erna verður ofar á lista en annar hvor þingmanna flokksins í kjördæminu.
Erna hefur um árabil verið einn ötulasti talsmaður bænda hér á landi. Hún hefur starfað undanfarið sem verkefnastjóri á rekstrarsviði hjá Mjólkursamsölunni. Hún starfaði áður sem hagfræðingur og aðstoðarframkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands í 20 ár auk þess sem hún sat í stjórn Arion banka (áður Nýja Kaupþing) 2008 til 2010.
Frá þessu greinir Elvar Eyvindsson, varaþingmaður Miðflokksins í Suðurkjördæmi, á fésbókarsíðu sinni í morgun. Hann skrifar:
„Ég hef verið varaþingmaður Miðflokksins í Suðurkjördæmi á yfirstandandi kjörtímabili og fengið nokkur tækifæri til að setjast á hið háa Alþingi. Tækifæri sem ég er þakklátur fyrir að hafa fengið og hefur sá tími verið fræðandi og áhugaverður í alla staði. Get ég með þokkalegri vissu sagt að það að vera þingmaður er öðruvísi starf en vel flestir sinna, og afskaplega áhugavert.

Ég hefði því að mörgu leyti getað hugsað mér að takast á við þetta starf, en það eru nokkur atriði sem ég tel mig hafa lært. Stærsta atriðið er það að þingmenn ná sjaldan miklum raunverulegum árangri og er ástæðan að mínu mati fyrst og fremst þekkingarskortur. Þekkingarskortur sem veldur því að þingmenn ná ekki í gegnum þykka veggi kerfisins og valdsins. Staðreyndin er sú að ekkert annað dugar en mjög yfirgripsmikil þekking á þeim málefnum sem viðkomandi þingmaður vill ná í gegn með. Og mikill tími og baráttuvilji. Niðurstaðan verður því miður oftast sú að menn karpa í þingsal við aðra þingmenn með litlum eða engum árangri. Þegar ég frétti að mögulega væri hægt að ná í dugmikla baráttukonu, Ernu Bjarnadóttur til framboðs ákvað ég að styðja frekar þann möguleika en að reyna sjálfur.
Erna hefur afar verðmæta þekkingu á landbúnaðarmálum og hefur meðal annars verið að fletta ofan af ótrúlegu sleifarlagi tollyfirvalda og fjármálaráðuneytisins við framkvæmd og eftirfylgni milliríkjasamninga. Þá hefur hún staðið fremst í flokki í baráttu fyrir bættri framkvæmd á krabbameinsskimunum kvenna. Hefur hún sýnt það í þessum tveimur málaflokkum að hún er einörð baráttukona svo að eftir er tekið. Ekki nóg með það, heldur hefur orðið áþreifanlegur árangur af baráttu hennar. Ég lýsi því yfir sérstakri ánægju með að Erna skuli hafa verið valin (af uppstillingarnefnd) til að skipa 2. sæti á lista Miðflokksins í Suðurkjördæmi fyrir næstkomandi Alþingiskosningar.“

Óskar Herbert Þórmundsson, formaður uppstillingarnefndar, vildi ekki staðfesta þessi tíðindi í samtali við Viljann í morgun, sagði aðeins að uppstillingarnefnd væri að leggja lokahönd á tuttugu manna framboðslista sem afhentur yrði stjórn kjördæmaráðs flokksins í vikunni. Þess má geta að Óskar er einmitt formaður þess ráðs sömuleiðis.
Birgir Þórarinsson skipaði oddvitasætið á lista Miðflokksins í Suðurkjördæmi í síðustu kosningum, en flokkurinn fékk þá einn mann kjörinn. Karl Gauti Hjaltason, þingmaður og fv. sýslumaður, gekk svo til liðs við Miðflokkinn ásamt Ólafi Ísleifssyni eftir að þeim félögum var vísað úr Flokki fólksins.