Eru bakhjarlar Viðreisnar að koma inn í Fréttablaðið?

Helgi Magnússon fjárfestir.

Staða fjölmiðla hér á landi er þröng eins og menn þekkja og erfitt fyrir einkaaðila á markaði að keppa við ríkið með alla sína forgjöf. Nýlega var þannig skýrt frá því að hlutafé í útgáfufélagi Morgunblaðsins hafi verið aukið um 200 milljónir króna og mun Kaupfélag Skagfirðinga hafa leitt þá aukningu.

Fréttablaðið hefur verið að fóta sig í breyttu rekstrarumhverfi, nú þegar ljósvakar 365 miðla sem voru heyra nú undir fjarskiptafyrirtækið Sýn. Samstarfssamningur er í gildi milli blaðsins og vefmiðilsins Vísis, en heyrst hefur að báðir aðilar hafi áhuga á að stytta gildistíma hans, þar sem Fréttablaðsfólk hefur lagt kapp á að byggja undir sinn eigin vef og undarlegt þykir til lengri tíma litið að fréttir og greinar blaðsins birtist dag hvern á tveimur ólíkum vefmiðlum.

Með óvæntri ráðningu Davíðs Stefánssonar í stól ritstjóra Fréttablaðsins fyrir helgi hafa orðið til miklar samsæriskenningar um að aðilar tengdir Viðreisn og fjölmiðlinum Hringbraut séu komnir inn í eigendahóp blaðsins, eða á leiðinni þangað.

Eru þá nefndir til sögunnar aðilar á borð við Helga Magnússon og Sigurð Arngrímsson, sem báðir eru fjársterkir mjög og hafa einnig látið sig stjórnmál varða á bak við tjöldin.

Það eru ekki síst starfsmenn Fréttablaðsins sem spá nú og spekúlera um næstu skref, því ráðning Davíðs við hlið Ólafar Skaftadóttur var óvænt í meira lagi, eins og Viljinn hefur áður skýrt frá. Ólöf er einhver allra snjallasti blaðamaður landsins og hefur marga þræði í hendi sér, en minna er vitað um tengslanet nýja ritstjórans. Hann mun á næstunni fá tækifæri til að kynna sínar áherslur í leiðaraskrifum og ritstjórnarstefnu blaðsins.

Næsta víst er að þær áherslur verða á aukna alþjóðasamvinnu og viðskiptafrelsi, enda telja bakhjarlar Viðreisnar mikilvægt að ýta undir þau sjónarmið í samkeppninni við íhaldssamari ritstjórnarstefnu Morgunblaðsins. Upptaka evru og aðild að ESB er þá ekki langt undan — í takt við pólitískar áherslur Viðreisnar.

Líklegt má telja að innan skamms fregnist meira af þessum hrókeringum í eignarhaldi Fréttablaðsins.