Eru Bretar á leið inn í EFTA og þannig inn í EES?

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, á afmælisfundi EES-samningsins í Brussel á dögunum.

Sú spurning brennur á stjórnmálaskýrendum í Bretlandi í kvöld hvort lausnin á Brexit-krísunni felist í aðild að EFTA ásamt Íslendingum, Norðmönnum, Liechtenstein og Sviss og þannig fáist aðild að EES-samningnum.

Allar þingályktunartillögurnar sem lagðar voru fram í neðri deild breska þingsins um málið í kvöld voru felldar. Þó var ein tillagan felld með litlum mun og snýr hún að aðild að EFTA og EES.

Sömuleiðis var tillaga um tollabandalag felld naumlega.

282 sögðu nei og 261 já við tillögu íhaldsþingmannanna Nick Boles, Robert Halfon og Caroline Spelman,  Stephen Kinnock og Lucy Powell frá Verkamannaflokknum og Stewart Hosie frá Skoska þjóðarflokknum.

Hún gengur út á að Bretar óski að nýju eftir inngöngu í EFTA og Evrópska efnahagssvæðinu EES. Þannig haldist áfram aðild að sameiginlega markaðnum.

Athygli vekur að sambærileg tillaga hlaut miklu minna fylgi í atkvæðagreiðslu þingmanna í síðustu viku og sagði Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins á þingi í kvöld, að spurning væri hvort ástæða væri til að bera þessa tillögu upp aftur, þar sem mögulegt væri að ná um hana samstöðu í þinginu.

Færi svo að Bretar gengju inn í EFTA yrðu þeir langstærsta aðildarþjóðin, svo sem nærri má geta.

Viljinn hefur óskað eftir viðbrögðum frá utanríkisráðherra vegna málsins, en hann hefur ekki gefið kost á þeim — enn sem komið er.