Eru leiðsögumenn huldufólk í íslenskri ferðaþjónustu? Á hverju á þetta fólk að lifa?

Ferðamennska er orðin stærsta atvinnugrein þjóðarinnar. Hún er nú hrunin, amk. tímabundið. Ljósmynd/Ferðamálastofa.

Athygli hefur vakið að nánast engum leiðsögumanni hefur verið sagt upp og fáir flutt sig yfir í hlutastarf þrátt fyrir skellinn vegna Kórónuveirunnar sem nú geysar.

Ferðaþjónustan er engu að síður komin algjörlega á hliðina um allan heim og Leiðsögn, félag leiðsögumanna, bendir á í erindi til Viljans að þótt þessi staðreynd hljómi eins og góðar fréttir í ástandi þar sem nánast öll ferðaþjónusta liggur niðri vegna Covid 19 sé reyndin önnur þegar betur er að gáð.

„Leiðsögumenn sem starfsstétt er nánast réttindalaus og má líkja stöðu þeirra við daglaunamenn hér á árum áður. Þá hafa undiboð tíðkast og í stað menntaðra leiðsögumanna fengnir til verksins erlendir hópstjórar á lægri launum. Ótrúlegt en satt, þetta voru kjörin á mesta uppgangstímabili í sögu íslenskrar ferðaþjónustu! Í dag er engin vinna í boði, réttur til atvinnuleysisbóta tvísýnn og hlutastarfaleiðin frostahillingar,“ segir í tilkynningu frá félaginu.

Þar er bent á að margir leiðsögumenn horfi fram á að fá ekki nema brot af atvinnuleysisbótum nú þegar vinnan sé horfin og þar sé um að kenna meingölluðu ráðningarsambandi við atvinnurekendur.

„Flestir leiðsögumenn eru ferðaráðnir, ákveðnar klukkustundir á dag og starfa oft fyrir margar ferðaskrifstofur. Þeir hafa engan uppsagnarrétt og atvinnuöryggi er ekkert. Hægt er að fella niður ferð með allt að 24 stunda fyrirvara og situr leiðsögumaður uppi með skaðann.

Leiðsögumenn starfa um kvöld og nætur, helgar, jól, páska og eru oft langdvölum burtu frá heimili sínu en við mat á starfshlutfalli hafa ferðaskrifstofur farið sína leiðina hver. Niðurstaðan er sú að afar fáir leiðsögumenn ná fullum atvinnuleysisrétti og munu sitja uppi með skertar atvinnuleysisbætur langt undir lágmarksframfærslu viðmiðum út árið því ekki er líklegt að margir ferðamenn slæðist hingað á næstunni,“ segir þar ennfremur.

„Staða leiðsögumanna er því grafalvarleg, tekjutapið algjört, fyrirsjáanlegt atvinnuleysi um langa hríð og skertar eða litlar bætur þrátt fyrir að þetta fólk hafi borgað sína skatta og skyldur í sameiginlega sjóði landsmanna,“ segir ennfremur í erindinu.

Aðgerðir ríkisstjórnar og Alþingis ná ekki til ferðaráðinna leiðsögumanna

Leiðsögm skýrir stöðu leiðsögumanna betur í neðangreindum punktum:

Grunnvandi leiðsögumanna er afar veik staða á vinnumarkaði.

a. Leiðsögumenn eru yfirleitt ekki fastráðnir heldur eru verkefna- eða ferðaráðnir launamenn. Þetta er úrfærsla af tímabundinni ráðningu, einskonar daglaunakerfi, sem hefur viðgengist í þessari atvinnugrein í áraraðir og má í raun rekja til þess er ferðaþjónusta var einungis sumarvinna.

Verkefni geta verið mislöng, allt frá fjórum klukkustundum og allt upp í tvær til þrjár vikur. Þegar ferð lýkur er ráðningarsambandi slitið þar til næsta verkefni hefst. Þar sem þetta eru tímabundir ráðningarsamningar er enginn uppsagnarfrestur og heldur ekki nein sérstök álags- eða áhættugreiðsla til að koma til móts við þá áhættu sem leiðsögumenn taka með því að starfa í þessu umhverfi.

b. Fyrirtæki líta ekki á leiðsögumenn sem starfsmenn sína og því falla þeir ekki undir úrræði ríkisstjórnar um blöndu hlutastarfs og atvinnuleysisbóta. Leiðsögumenn falla heldur ekki undir hópinn sjálfstætt starfandi verktaka þar sem flestir leiðsögumenn eru launþegar en í tímabundum verkefnum. Þar að auki starfa leiðsögumenn gjarnan fyrir marga ferðaskipuleggjendur sem flækir málið enn frekar. Leiðsögumenn virðast ætla að falla milli skips og bryggju.

c. Þeir leiðsögumenn sem kjósa að vinna sem sjálfstætt starfandi verktakar taka samt víða laun samkvæmt samningum Leiðsagnar – stéttarfélags leisögumanna og eru það atvinnurekendur sjálfir sem ákvarða hvert verktakaálagið er (18-25%)

d. Leiðsögumenn vinna mismikið eftir árstíðum og eðli málsins samkvæmt er sumarið helsta aflatíðin. Þá starfa leiðsögumenn iðulega í lögbundnum fríum um kvöld og helgar. Vinnutarnir geta verið langar og svo á milli eru leiðsögumenn verkefnalausir. Tekjur geta því sveiflast mikið milli mánaða en á ársgrundvelli ná flestir leiðsögumenn þokkalegum launum og greiða af þeim í sameiginlega sjóði landsins.

Staða leiðsögumanna á tímum Covid19 og „aflabrests“.

Algjört hrun hefur orðið í ferðaþjónustunni frá miðjum mars. Leiðsögumenn neyðast til að skrá sig atvinnulausa og kemur þá í ljóst að vegna þessa ósanngjarna vinnufyrirkomulags og sveiflna í verkefnum ná fæstir leiðsögmenn fullum atvinnuleysistryggingum. Í útreikningum á starfshlutfalli leiðsögumanna er ekkert tillit tekið til sérstöðu greinarinnar og eitraðs ráðningasambands.

a. Fyrir það fyrsta er miðað við síðustu þrjá mánuði þegar kemur að tekjutengdum bótum og voru þeir mánuðir þegar orðnir rýrir þar sem ferðamönnum tók að fækka fyrir nokkru síðan þegar Covid 19 tók að breiðast út frá Kína í ársbyrjun.

b. Fall flugfélagsins WOW árið hafði þegar haft áhrif á fjölda ferðamanna og endurspeglaðist í tekjum og atvinnumöguleikum leiðsögumanna.

c. Gengi íslensku krónunnar hefur verið fremur hátt fram að því hruni sem við nú sjáum fram á og hafði það einnig áhrif á ferðaþjónstuna, m.a. með lækkuðum verktakalaunum

d. Mikil aukning á því að erlendir hópstjórar væru fluttir inn til landsins til að ganga í störf innlendra leiðsögumanna.

e. Þá kemur starfhlutfalla útreikningur ferðaskrifstofa illa út fyrir leiðsögumenn en þar eru unnar klukkustundir taldar saman og skiptir þá engu hvort um jól, páska, helgi, eða um nótt var að ræða. Ekkert álag er metið þegar leiðsögumenn dvelja burtu frá heimili vikum saman eða starfa sem ökuleiðsögumenn á mörgum tungumálum. Leiðsögumenn sem hafa leiðsögn að fullu starfi á ársgrundvelli, með laun vel yfir kjarasamningsbundum launum, og hafa borgað samviskusamlega skatta og skyldur virðast flestir metnir í um 50 – 60% starfshlutfall.

f. Algjört ósamræmi er í því á milli launagreiðenda leiðsögumanna hvernig þeir meta starfshlutfallið sem þeir senda inn til Vinnumálastofnunar til útreiknings bóta.

g. Hvergi endurspeglast álag og áhætta leiðsögmanna í útreiknuðu starfshlutfalli en þetta álag er að einhverju sjáanlegt í útborguðum launum þeirra sem liggja til grundvallar skattgreiðslum og tryggingjaldi. Sem sagt framlögum þeirra til opinberra sjóða landsmanna.

h. Einnig er rétt að vekja athygli á því að laun leiðsögumanna eru nálægt lægstu launum sem greidd eru í landinu.

i. Leiðsögumenn eru margir víðförlir og vel menntaðir, með mikla og fjölþætta tungumálakunnáttu, þekkingu á eigin landi, menningu, náttúru, náttuvernd og öryggismálum. Það væri mikil synd að stéttin legðist af.

„Sanngjarnara og einfaldara væri fyrir Vinnumálastofnun og leiðsögumenn að litið verði til árslauna leiðsögumanna þegar meðaltekjur eru reiknaður út. Þær upplýsingar liggja fyrir í skattframtölum. Að öðrum kosti virðist fjöldi leiðsögumanna sem hafa haft leiðsögn erlendra ferðamanna að aðalstarfi lenda í þeirri þverstæðukenndu stöðu að fá einungis sem nemur 50-70% af atvinnuleysisbótum. Þetta starfshlutfall yrði að tekjutengdu mánuðum þremur að skertu hlutfalli lágmarksbóta.

Það er einnig athyglivert að eftir efnahagsáfallið 2008 tók ferðaþjónustan við töluverðum fjölda fólks sem missti önnur störf. Þar á meðal voru margir háskólamenntaðir sem ýmist hurfu til leiðsögustarfa, sem áður höfðu verið sumarstörf, eða beinlínis leituðu sér leiðsögmenntunar. Eins og staðan er núna er engin leið að sjá hvort og hvenær landið opnast aftur fyrir ferðamönnum. Því er spurt: Á hverju á þetta fólk að lifa?“