Eru mæður miklu betri uppalendur barna en feður?

Ágúst Borgþór Sverrisson rithöfundur og blaðamaður.

„Mæður eru í yfirgnæfandi meirihluta miklu betri uppalendur en feður. Meðal annars á mínu heimili. Vissulega hef ég lagt eitthvað af mörkum og myndað gott kærulaust mótvægi við ofurábyrga móðurina,“ segir Ágúst Borgþór Sverrisson, rithöfundur og blaðamaður á DV.

Ágúst Borgþór er ekki kjarklaus maður, að hætta sér inn á þennan vettvang, þar sem einmitt þetta atriði verður oft deiluefni þegar kemur að forsjá barna og sýnist þá sitt hverjum. Svo vægt sé til orða tekið.

Sjálfur telur hann þetta atriði skipta máli í deilum um forræði og umgengni.

„Mæður eru oftast miklu betri uppalendur og láta sér hag barnanna meira fyrir brjósti brenna. Oftast,“ segir Ágúst Borgþór.

Hlutverk feðra mjög mikilvægt

Á Vísindavef Háskóla Íslands, veltir Sigurlína Davíðsdóttir, sálfræðingur og prófessor emerita, þeirri spurningu fyrir sér, hvort munur sé á körlum og konum sem uppalendum. Hún segir að í aðalatriðum sé minni munur á körlum og konum sem uppalendum en sá munur sem er á körlum innbyrðis og konum innbyrðis.

„Fólk elur börn sín upp með mismunandi hætti og sá mismunur fer eftir mörgu öðru frekar en kynferði foreldranna. Til dæmis tekur fólk með sér sem foreldrar mismunandi reynslu frá eigin uppeldi og mismunandi gildismat frá fjölskyldu sinni.

Diane Baumrind (1991) hefur leitt rök að því að agi og hlýja séu mikilvæg hugtök í uppeldi og þær uppeldisaðferðir sem innifela mikið af hvoru tveggja séu bestar (leiðandi foreldrar). Þessar uppeldisaðferðir eru ekki bundnar við kyn, svo að hægt er að vera leiðandi foreldri hvort sem um er að ræða föður eða móður.

Samkomulag foreldranna sín á milli hefur mikið að segja um það, hvernig uppeldið tekst. Ef faðirinn sýnir móðurinni stuðning meðan barnið er lítið, verða samskipti móður og barns innilegri en annars væri, og sömuleiðis hefur samband foreldranna áhrif á það, hversu mikil samskipti eru milli ungbarnsins og föðurins (Cox, Owen, Henderson og Margand, 1992).

Mismunurinn á foreldrunum sem uppalendum hefur fyrst og fremst komið fram í því hingað til, að mæðurnar hafa eytt meiri tíma með börnum sínum og borið aðalábyrgðina á uppeldi þeirra. Þetta hefur þó breyst hratt að undanförnu og gera má ráð fyrir því að feður láti enn meira til sín taka í barnauppeldinu með tilkomu nýlegra laga um foreldraorlof.

Uppeldi ungra karla hefur ekki styrkt þá eins eindregið til að sinna barnauppeldi og uppeldi ungra kvenna. Því eru feðurnir oft óvissari en mæðurnar um getu sína til að sinna ungum börnum. Hins vegar vex þeim ásmegin við að reyna þetta og reynast oft ekki síður hæfir en mæðurnar,“ segir í pistli Sigurlínu.

Og lokaorð hennar eru þessi:

„Ljóst er að feðurnir geta eins vel sinnt um börnin og mæðurnar, sé þeim gefið tækifæri til þess. Rannsóknir sýna að það er börnunum mjög hollt að feður þeirra sinni þeim. Umönnun feðra tengist hærri greind barna, betri námsárangri, meiri félagsþroska og betri aðlögun en hjá börnum sem feðurnir sinntu lítið (Gottfried, Bathurst og Gottfried, 1994). Það er því til mikils að vinna að feður taki sér tíma til að sinna börnunum og að mæður geri þeim það kleift.“