Innleiðing á þriðja orkupakkanum breytir ekki þeirri staðreynd að Ísland er með einangrað raforkukerfi. Þar að auki er innleiðing þriðja orkupakkans gerð með þeim fyrirvara að samþykki Alþingis þarf til að millilandatenging með raforku verði að veruleika.
Þetta segir Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í grein í Morgunblaðinu í dag. Hann segir þennan fyrirvara gerðan til að taka af öll tvímæli um að með innleiðingu þriðja orkupakkans felist einhvers konar skylda til að heimila lagningu sæstrengs í lögsögu okkar.
„Ef ESB, ESA eða EFTA-dómstóllinn líta svo á, sem ekkert bendir til, að í þriðja orkupakkanum felist slík skylda getur niðurstaðan ekki orðið önnur en sú að við hefðum ekki innleitt hann með réttum hætti. Þá erum við komin á byrjunarreit aftur og enginn skaði skeður,“ segir Brynjar.
Stefna til framtíðar í raforkumálum
„Fyrir okkur Íslendinga er mikilvægast að móta skýra framtíðarstefnu í raforkumálum og það tengist þriðja orkupakkanum ekki beint, enda í okkar höndum. Kannski er öllum ekki kunnugt um að í ráðuneyti ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarmála er slík vinna þegar hafin. Stefnumótun í þeim efnum þarf að vera opin og gagnsæ því auðlindin skiptir okkur öll máli.
Hún þarf að horfa til allra samfélagsþátta og mæta þörfum almennings. Hún þarf einnig að mæta vexti og þróun samfélagsins á næstu árum og áratugum og taka mið af vilja og markmiðum okkar í loftslagsmálum og þeim miklu tækninýjungum sem eru að eiga sér stað.
Þótt erfitt sé að sjá langt fram í tímann er nokkuð ljóst að í nánustu framtíð erum við ekki að tengjast innri raforkumarkaðnum með sæstreng. Svo erum við nokkuð sammála um að sú orka sem til er verði nýtt áfram til uppbyggingar atvinnulífs hér á landi. Þar eru miklir möguleikar,“ bætir Brynjar við.