ESB-sinnar og sjálfskipaðir fullveldisverðir vilja koma EES fyrir kattarnef

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra undirstrikaði þýðingu EES-samningsins fyrir Ísland um leið og hann hvatti til stöðugrar árvekni og endurmats í ræðu sem hann flutti á málstofu í Háskólanum í Reykjavík í dag. Ráðherra varaði við að um þessar mundir væri sótt að samningnum úr tveimur ólíkum áttum, annars vegar frá ESB-sinnum og hins vegar frá sjálfskipuðum fullveldisvörðum, og við því yrði að bregðast. 

Alþjóða- og Evrópuréttarstofnun Háskólans í Reykjavík, í samvinnu við utanríkisráðuneytið og sendinefnd ESB á Íslandi, stóð fyrir málstofu um áhrif EES-samningsins á íslenskt samfélag í dag í tilefni þess að 25 ár eru í ár frá því samningurinn var gerður.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra flutti upphafsræðu fundarins þar sem hann áréttaði mikilvægi EES-samningsins fyrir Ísland á fjölmörgum sviðum. „Það var mikið gæfuspor á 75 ára afmæli fullveldisins að við skyldum nýta forræði okkar yfir eigin málum til að gera alþjóðasamning á okkar eigin forsendum, sérsniðinn að okkar hagsmunum,“ sagði utanríkisráðherra. 

EES-svæðið.

Í ræðunni benti Guðlaugur Þór meðal annars á að EES-samningurinn fæli í sér nánast óheftan aðgang að einum stærsta markaði heims og veitti Íslendingum tækifæri til búsetu og atvinnu hvarvetna á EES-svæðinu. Um leið gæti Ísland staðið fyrir utan þau svið þar sem hagsmunir Íslands færu ekki saman við hagsmuni ESB, til dæmis á sviði sjávarútvegs og landbúnaðarmála. „Hvort sem horfum á málin sem neytendur, atvinnurekendur, innflytjendur, útflytjendur, launþegar, fræðimenn eða námsmenn, þá er svo margt í okkar umhverfi og í daglegu lífi sem við teljum sjálfsagt en er í reynd grundvallað á þeim réttindum sem við njótum samkvæmt EES-samningnum,“ segir í ræðu ráðherra. 

Þótt endamarkið sé ekki hið sama hjá þessum hópum hafa þeir sameiginlega hagsmuni af því að ryðja EES-samningnum úr vegi

Utanríkisráðherra vék því næst að því að þrátt fyrir þetta ætti EES-samningurinn sér óvildarmenn. Annars vegar hefðu ESB-sinnar lengi reynt að grafa undan samningnum, meðal annars með fullyrðingum um að Ísland innleiddi 80-90 prósent af löggjöf sambandsins. „Á fyrsta ári mínu sem utanríkisráðherra lét ég gera úttekt á þessu og þá kemur í ljós, svart á hvítu, að frá gildistöku samningsins árið 1994 og til ársloka 2016 þurftum við Íslendingar að innleiða 13,4 prósent af gerðum Evrópusambandsins,“ sagði Guðlaugur Þór í ræðunni.

Hins vegar beindi nú hreyfing sem lengst af barðist gegn inngöngu Íslands í ESB spjótum sínum að EES-samningnum með staðhæfingum um að hann fæli í sér slíkt fullveldisafsal að uppsögn væri óumflýjanleg. „Það er kaldhæðnislegt að ESB-sinnar og þessir sjálfskipuðu fullveldisverðir hafi sameinast um að koma EES-samningnum fyrir kattarnef. Þótt endamarkið sé ekki hið sama hjá þessum hópum hafa þeir sameiginlega hagsmuni af því að ryðja EES-samningnum úr vegi,“ sagði Guðlaugur Þór. 

Guðlaugur Þór benti á að hann hefði skipað starfshóp undir forystu Björns Bjarnasonar fv. ráðherra til að vinna skýrslu um aðild Íslands að EES-samningnum, meðal annars vegna þeirra tímamóta sem EES-samstarfið væri nú á. „Ég er þess fullviss að málefnaleg og vönduð skoðun á 25 ára reynslu okkar af EES-samninginn mun sýna ótvíræðan ávinning af aðild okkar en jafnframt verða okkur hvatning til að bæta framkvæmd samningsins enn frekar,“ sagði utanríkisráðherra.