ESB styrkir kjarnorkurannsóknir í Bretlandi

Kjarnorka er fljótlegasta leiðin til að draga úr mengun og losun gróðurhúsalofttegunda, því þó að sólar- og vindorka sé umhverfisvæn, þá hefur ekki tekist að gera hana stöðuga í notkun. Stærsta rannsóknarsetur heims í rannsóknum á kjarnasamruna, The Joint European Torus (JET), sem Breska kjarnorkustofnunin rekur, hefur tryggt sér styrki upp á allt að 100 milljón evrur frá Evrópusambandinu (ESB) á næstu tveimur árum. Frá þessu greindi Energy Live News nýlega. 

Fram að þessu hafa kjarnorkuver búið til kjarnorku með kjarnaklofnun þungra, geislavirkra frumefna á borð við úran, sem klofna niður í joð, sesíum, strontíum, xenon og baríum. Nú er verið að gera tilraunir með kjarnasamruna, þar sem léttari og ógeislavirk frumefni eins og vetni renna saman og mynda helíum. Hvort ferlið um sig býr til gríðarmikla orku, nema minni hætta er á alvarlegum mengunarslysum við hið síðarnefnda.

Kjarnaklofnun býr til hættulegan úrgang og getur valdið keðjuverkunum sem erfitt er að stjórna, sbr. ofhitnun og bráðnun kjarnaofna.

Kjarnasamruni notast við ógeislavirk efni, og vandinn þar er að koma í veg fyrir að ferlið slökkvi á sér, sem er jafnframt það sem gerir það öruggt. 

Líkja eftir orku sólarinnar

Kínverjar eru orðnir framarlega í notkun á kjarnorku sem orkugjafa, og hafa byggt nokkur nútímaleg kjarnorkuver á mettíma.

„Gervisólin“ (e. Experimental Advanced Superconducting Tokamak – EAST), er kínversk kjarnasamrunatilraun þar sem náðst hefur að skapa hitastig upp á 100 milljón gráður. Verkefnið hefur skapað vonir um að hægt verði að hanna ótakmarkaðan umhverfisvænan orkugjafa fyrir framtíðina. 

Kjarnasamrunarannsóknir leitast þannig við að líkja eftir orku sólarinnar og stjarnanna, í viðleitni sinni við að hanna gríðarmikla uppsprettu af hreinni orku án kolefnislosunar. Vísindamenn frá 28 Evrópulöndum nota aðstöðuna í Bretlandi til að smíða orku framtíðarinnar, í gegnum samvinnu EUROfusion sem stýrir fjármagni og verkefnum fyrir hönd Euratom.

Samvinnunni verður fram haldið þrátt fyrir að Bretland sé að yfirgefa ESB.
Bandaríkjastjórn, undir forystu Donald Trump dró sig út úr Parísarsamkomulaginu, hætti við áætlun um hreina orku (e. Clean Power Plan) og létti á reglugerðum varðandi kolefnisbruna. En hún er nú orðin óvæntur liðsauki í baráttunni við hlýnun loftslagsins með því að beina sjónum sínum, og gríðarmiklu fjármagni, að kjarnorku sem orkugjafa á ný, skv. umfjöllun í Medium. 

Fyrri Bandaríkjaforsetar hafa einnig verið hlynntir kjarnorku, t.d. George W. Bush og Obama og í byggingu eru tvö ný kjarnorkuver í Vogtle, í Georgíufylki.

En menn hafa viljað stíga varlega til jarðar, kjarnorkuverum hefur verið lokað á undan áætlun og jafnvel að ástæðulausu. Kjarnorka hefur átt við ímyndarvandamál að stríða frá því að alvarleg mengunarslys urðu á Þriggja mílna-eyju í Pennsylvaníu árið 1979, Chernobyl-slysinu í Pripyat í Úkraínu árið 1986 og í Fukushima í Japan árið 2011.

Fleiri hindranir en almenningsálitið eru í veginum, kjarnorkuver eru gríðarlega dýr í byggingu, og kjarnorka er aðeins um fjórðungi ódýrari en gas, sem hefur verið að koma í stað kjarnorkuvera sem hefur verið lokað.