Evrópumet í áfengissköttum: Eru engin takmörk fyrir skattpíningunni?

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.

„Stjórn Félags atvinnurekenda fagnar því að áður boðuð lækkun tryggingagjalds skuli ganga eftir í fjárlagafrumvarpi ársins 2020. Stjórnin minnir hins vegar á að betur má ef duga skal. Gangi lækkunin eftir, verður tryggingagjaldið engu að síður rúmu prósentustigi hærra en það var árið 2007, eða 6,35% af launagreiðslum í stað 5,34%.“

Þetta segir í ályktun sem stjórn Félags atvinnurekenda samþykkti á fundi sínum í dag. Tilefnið er nýtt fjárlagafrumvarp, sem mælt er fyrir á þingi í dag og auknar álögur sem lagst hafa á fyrirtækin í landinu.

Stjórn FA minnir á niðurstöður skýrslu, sem Intellecon ehf. vann fyrir félagið og birt var í júní, en þar kemur fram að launatengd gjöld fyrirtækja hafi hækkað um 60% frá aldamótum.

„Hækkun tryggingagjaldsins er drjúgur hluti þeirrar hækkunar. FA telur mikilvægt að snúa af þessari braut, enda dregur hækkun launatengdra gjalda úr samkeppnishæfni fyrirtækja, heldur aftur af hvata þeirra til að bæta við sig fólki en ýtir þvert á móti undir útvistun starfa og gerviverktöku.

Stjórn FA gagnrýnir jafnframt harðlega enn eina hækkunina á álögum ríkisins á áfengi, sem áformuð er í fjárlagafrumvarpinu. Annars vegar kemur hin árvissa verðlagshækkun á áfengisgjaldi, sem að þessu sinni er 2,5%, en jafnframt á að hækka álagningu ÁTVR á áfengi.

FA vísar til nýlegra gagna frá Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins, þar sem fram kemur að áfengisverð á Íslandi sé það hæsta í Evrópu, tæplega þrefalt meðalverð í Evrópu. Það er ekki skrýtið, enda á Ísland nú þegar Evrópumet í áfengissköttum. Stjórn FA spyr, og ekki í fyrsta sinn: Eru engin takmörk fyrir því hvað stjórnmálamenn telja að hægt sé að skattpína kaupendur þessarar einu neysluvöru?“