Ríki Evrópusambandsins (ESB) höfnuðu lagabálki sem á að gilda um hvaða fjármálaafurðir megi kalla „grænar“ og „sjálfbærar“, að sögn embættismanns ESB, en höfnunin þykir mikið áfall fyrir loftslagsáætlun sambandsins. Frá þessu greindi Reuters í dag.
Ákvörðunin kollvarpaði samkomulagi sem löggjafi ESB og finnska forsæti ESB gerðu í síðustu viku, og samningamenn höfðu fagnað sem vörðu á leið til málamiðlunar við að koma á alþjóðlegum staðli um græn skuldabréf og aðrar fjármálaafurðir, sem höfðað gætu til loftslagsmeðvitaðra fjárfesta.
Bretland, Frakkland, Tékkland, Ungverjaland, Pólland, Slóvakía, Rúmenía, Búlgaría og Slóvenía voru andvíg samkomulaginu á fundi stjórnarerindreka ESB í Brussel, af ótta við að það myndi koma í veg fyrir að fjárfestingar í kjarnorku- og kolaverkefnum yrðu merktar sem grænar.
Slíkar fjárfestingar voru ekki beinlínis útilokaðar frá flokkum nýs flokkunarkerfis ESB, en samkvæmt reglunum yrði mjög erfitt að merkja þær sem grænar, og gæti það mögulega dregið úr framtíðar fjárfestingu í þesskonar orkuiðnaði.
Frakkland reiðir sig á kjarnorku, en Evrópulönd eru enn að mestu leyti háð kolum.
Löggjöfinni ætlað að færa fjármagn í grænan iðnað
Bakslagið kom sama dag og framkvæmdastjórn ESB afhjúpaði áform um að gera sambandið grænna og draga verulega úr kolefnislosun.
Flokkunarkerfið er talin lykilstoð stefnunnar, sem gæti flutt fjármagn til endurnýjanlegrar orku og annarra grænna verkefna, og tekist á við svokallaða „grænþvott“, þar sem fyrirtæki fá græna vottun án þess að verðskulda hana.
Samkvæmt reglum ESB verða löggjafinn og stjórnvöld að gera málamiðlanir vegna fyrirhugaðrar löggjafar þegar ágreiningur kemur upp. Finnland fór fyrir viðræðunum fyrir hönd ESB-ríkja, en landið gegnir sex mánaða forsetaembætti ESB til ársloka.
Venjulega styðja ríki málamiðlanir fulltrúa sinna, en höfnun grænu laganna um fjármögnun undirstrikar djúpan klofning á milli sambandsríkjanna um málið.
Fulltrúum ríkjanna fannst málamiðlunatextinn ganga lengra en það umboð sem Finnar fengu til að leiða viðræðurnar, að sögn embættismannsins. Nú þurfi að samþykkja nýtt umboð, líklega í næstu viku.
Viðræður við Evrópuþingið ættu að hefjast á ný á næstu dögum með það að markmiði að semja fyrir lok ársins, bætti embættismaðurinn við.