Evrópusambandið bakkar í deilu um útflutningsbann: Ísland fær hlífðarbúnað

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.

Evrópusambandið hefur fallist á sjónarmið Íslands og annarra EFTA-ríkja innan EES og fallið frá útflutningsbanni til EFTA-ríkjanna á tilteknum hlífðarbúnaði sem notaður er í störfum heilbrigðisstarfsfólks og er nauðsynlegur í baráttunni við útbreiðslu Covid-19 veirunnar.

Bannið tekur þannig ekki til EFTA-ríkjanna innan EES, útflutningur á framangreindum búnaði verður því áfram heimill og þarfnast ekki sérstakra leyfa.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef utanríkisráðuneytisins í kvöld, en ákvörðun þessa efnis var tekin á fundi framkvæmdastjórnar ESB í Brussel í kvöld og mun leiðrétt reglugerð, sem tryggir að útflutningsbannið nær ekki til EFTA-ríkjanna, því taka gildi í stað þeirrar sem fyrir var.

Að óbreyttu hefði slíkt bann haft þau áhrif að ekki mætti flytja þennan búnað frá ESB til Íslands án sérstaks útflutningsleyfis.

„Ég fagna því að Evrópusambandið hefur ákveðið að standa við skuldbindingar sínar gagnvart EFTA-ríkjunum og viðurkennt stöðu okkar og réttindi á innri markaðinum. Ég gerði ekki ráð fyrir öðru en sambandið myndi sjá að sér en við áttum náið og gott samstarf við stjórnvöld í Noregi og annarra EFTA-ríkja til að tryggja að svo yrði,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra.

Fyrr í dag áttu þær Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, og Ursula Van der Leien, forseti framkvæmdastjórnar ESB, símafund þar sem fram kom hjá Van der Leien að hún myndi beita sér fyrir lausn málsins.