Evrópusambandið stillir átta þjóðum Evrópu upp við vegg

Þess er nú krafist að átta ríki ESB einkavæði sínar vatnsaflsvirkjanir – Þvert á fullyrðingar um að Íslendingar þurfi ekki að einkavæða Landsvirkjun við beina aðild að evrópska orkukerfinu. Þetta er fullyrt í fréttaskýringu um málið sem birtist í Bændablaðinu sem kom út í dag. Greinina skrifar ritstjóri blaðsins, Hörður Kristjánsson.

Þar segir að framkvæmdastjórn Evrópu­sambandsins hafi gert kröfu um að franska ríkið og 7 önnur ESB-lönd láti af yfirráðum sínum yfir vatnsaflsvirkjunum innan eigin landamæra og hleypi einkafyrir­tækjum að þeim rekstri.

„Þetta er þvert á fullyrðingar um að aðild Íslendinga að orkukerfi Evrópu (EU power grid) í gegnum orkupakka 3 skipti engu máli varðandi ríkiseign á íslenskum orkuverum. Hefur framkvæmdastjórnin, sem hefur umsjón með frjálsri samkeppni í Evrópu, verið að þrýsta á Frakkland og sjö önnur lönd í langan tíma til að tryggja að opnað verði fyrir einkafjármagn í orkugeiranum.

Þann 7. mars síðastliðinn var síðan höfðað samningsbrotamál gegn Frakklandi, Þýskalandi, Austurríki, Póllandi, Portúgal, Svíþjóð, Ítalíu og Bretlandi fyrir að hafa ekki farið í opin útboð á nýtingarrétti vatnsfalla og vatnsaflsvirkjana. Hafa 107 þingmenn á franska þinginu staðið á móti þessari kröfu framkvæmdastjórnar ESB, en hægt og bítandi orðið að gefa eftir á ýmsum sviðum í orkumálunum. Hafa þeir þó verið að reyna að fá á hreint hvað Frökkum er heimilt í þessum efnum en deilt hefur verið um innihald tilskipana ESB.

Gefa eftir yfirráðarétt almennings

Eftir einkavæðingu Aéroports de Parísar, sem var endanlega samþykkt fimmtudaginn 9. maí sl. með atkvæðagreiðslu í þinginu, virðist raforkugeirinn ætla að verða næsta heita deilumálið. Þar stefnir allt í að franska ríkið verði neytt til að gefa eftir yfirráðarétt almennings yfir sínum orkuverum samkvæmt frétt L‘Express.

Á frönskum vefmiðlum má sjá hörð orð um einræðistilburði ESB við að innleiða skefjalausan kapítalisma í franska orkugeirann án þess að stjórnvöld hreyfi þar legg né lið. Það sé allavega lágmarkið að þjóðin sé spurð um það í þjóðaratkvæðagreiðslu hvort hún vilji afsala sér yfirráðum yfir eigin orkufyrirtækjum. Einnig er spurt hvort verið sé að færa franska orkugeirann í hendur kínverskra fjárfesta á silfurfati,“ segir ennfremur í fréttaskýringunni.

Þar er jafnframt haft eftir frönskum þingmönnum, að skortur sé á pólitískum vilja franska ríkisins til að verja það sem þeir segja vera spurning um öryggi og jafnvel fullveldi Frakklands.

„Það lítur út fyrir að við séum að reyna að ræða um afsal í smáatriðum við framkvæmdastjórn Evrópusambandsins frekar en að mótmæla í grundvallaratriðum einkavæðingu á okkar vatns­orkuverum.“

Hún segir að svo virðist sem ríkisstjórn Frakklands skammist sín fyrir að fá þessa tilskipun frá framkvæmdastjórn ESB og reyni að höndla það með diplómatískum hætti fremur en að setja hnefann í borðið og standa á sínu af fullri hörku.

Krafa framkvæmda­stjórnar­innar snertir yfirráð fransks almennings yfir 399 vatnsaflsvirkjunum víða um Frakkland. Með öðrum orðum er verið að neyða franska ríkið til að afsala sér yfirráðum yfir sínum vatnsorkuverum í hendur einkafyrirtækja. Það er nokkuð sem íslenskir þingmenn, sem hafa haft forgöngu um að innleiða orkupakka 3 á Íslandi, hafa þvertekið fyrir að væri nokkur hætta á að geti gerst hér á landi, að því er segir í fréttaskýringu Bændablaðsins.