Fær ESB yfirþjóðlegt vald yfir ákvörðunum Alþingis og sveitarstjórna?

EFTA-ríkin Noregur, Ísland og Liechtenstein eru að hefja viðræður við Evrópusambandið (ESB) um útvíkkun þjónustutilskipunar ESB, um að sveitarfélög og þjóðþingin skulu bera tilkynningaskyldu til Evrópusambandsins og ESA (Eftirlitsstofnunar EFTA) um drög að nýjum lögum og reglum, eigi síðar en þremur mánuðum fyrir gildistöku þeirra.

Hingað til hafa þessar aðilar getað fjallað um löggjöf og ákvarðanir stjórnvalda í viðkomandi löndum eftir á og lagt mat á það hvort þær samræmist gildandi samningum. Það er mikil breyting fólgin í því að afla þurfi samþykkis fyrirfram, eins og nú er lagt til.

Frá þessu segir í norska miðlinum abcnyheter. Þar kemur fram, að ESB eða Eftirlitsstofnun EFTA geti stöðvað ákvarðanir EES-ríkjanna á sviði þjónustu og fái nokkurs konar neitunarvald áður en þær taka gildi, telji þessir aðilar þær brjóta í bága við Evrópurétt eða EES-samninginn.

Þann 10. janúar 2017 lagði framkvæmdastjórn ESB til að útvíkka tilkynningarskyldu við þjónustutilskipun ESB, sem Noregur, Ísland og Liechtenstein eru aðilar að í gegnum EES-samninginn, á hátt sem ýmsum í Noregi hugnast lítt. Minna hefur farið yfir umræðu um þessi mál hér á landi.

Gangi breytingarnar eftir mun framkvæmdastjórn ESB eða Eftirlitsstofnun EFTA hafa vald til að stöðva slíkar ákvarðanir stjórnvalda (Alþingis, ríkisstjórnar, sveitarstjórna) í EFTA-löndunum. Framkvæmdastjórn ESB getur þá einnig stöðvað ákvarðanir þjóðkjörinna fulltrúa ef það telur að ákvörðunin sé ekki réttlætanleg eða nauðsynleg á grundvelli almannahagsmuna.

Alþingishúsið við Austurvöll / Bragi Þór Jósefsson fyrir Alþingi.

Samkvæmt 7. gr. fyrirhugaðrar tilskipunar getur framkvæmdastjórn ESB ákveðið að hún telji áform um nýja eða breytta löggjöf brjóta í bága við skyldur sameiginlegs þjónustusvæðis og krafist þess að yfirvöld hafni eða felli umræddar reglur úr gildi.

Mikil íhlutun í sjálfstæði landanna og ógn við lýðræðið

Alþýðusambandið í Noregi hefur áhyggjur af þessum breytingum.

Í skýrslu frá sambandinu kemur fram að það telji þetta hafa í för með sér óþarfa íhlutun í norska lagasetningu.

Í janúar skrifuðu 160 stofnanir, frjáls félagasamtök og fleiri aðilar innan aðildarríkja ESB opið bréf þar sem þær vöruðu mjög við kröfunni um fyrirfram tilkynningar um lagabreytingar. Slík upplýsingaskylda mun takmarka framsækna stjórn hvers lands eða sveitarfélags fyrir sig og skaða lýðræðið, og er algerlega óviðunandi, sögðu þær m.a.