83 ný tilfelli kórónaveirunnar sem veldur COVID-19 greindust hér á landi sl. sólarhring. Er það umtalsverð aukning frá þeim tölum sem birtust um helgina og sýnir enn og aftur að varasamt er að draga of víðtækar ályktanir af tölum sem birtast um og eftir helgi, þar sem mun færri sýni eru tekin hér á landi um helgar.
1071 eru nú í einangrun og má því gera því skóna, að jafnvel á morgun verði fjöldi fólks með virk smit í einu orðinn meiri en þegar mest lét í fyrstu bylgju farsóttarinnar sl. vetur.
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, sagðist í hádegifréttum Bylgjunnar, telja að það taki lengri tíma nú en í fyrstu bylgjunni að sjá rénun kórónuveirufaraldursins. Hann ætlar að skila heilbrigðisráðherra nýju minnisblaði á fimmtudaginn og á von á að hertar aðgerðir gildi áfram. Ekki sé ástæða til að herða aðgerðir að svo komnu máli, en fara beri mjög varlega í að aflétta þeim sömuleiðis.
„Ég held ég verði að sjá núna næstu dagana hvernig þróunin verður en eins og ég hef sagt margoft þá held ég að við verðum að fara mjög hægt í það að aflétta, annars fáum við það bara í bakið aftur og það tekur okkur þá lengri tíma að reyna að ráða að niðurlögum faraldursins aftur,“ sagði Þórólfur á Bylgjunni nú í hádeginu.