Fáir innlagðir ferðamenn munu hafa talsverð áhrif á starfsemi Landspítala

Ljósmynd: LSH.

Greinilegt er af lestri áhættumats sem Landspítalinn hefur unnið vegna áforma um opnun landsins þann 15. júní nk., að þar hafa menn miklar áhyggjur af því að spítalinn ráði illa við aðra bylgju kórónuveirufaraldursins ofan í þá fyrstu.

Áhættumatinu var skilað til heilbrigðisráðherra um miðja síðustu viku. Viljinn óskaði þá þegar eftir afriti af því, en fékk þau svör að það yrði birt eftir helgi. Það var svo kynnt á vef heilbrigðisráðuneytisins í dag samhliða skýrslu stýrihóps um afnám ferðatakmarkana.

„Fyrirhugað er að opna landið fyrir ferðamönnum sem eru mögulega að koma frá löndum þar sem faraldurinn er enn virkur og ný smit greinast jafnvel daglega. Það er fremur líklegt að einhverjir beri með sér veiruna og útsetji og jafnvel smiti bæði samferðamenn sína og Íslendinga sem þeir hitta á ferðum sínum. Skimun einkennalausra er takmarkað úrræði þar sem neikvætt sýni þýðir ekki endilega að viðkomandi verði jákvæður á næstu dögum. Það er því líklegra en ekki að fólk veikist og einhverjir
þurfi spítalavist. Það verður mikil áskorun að manna spítalann að sumarlagi þegar stór hluti starfsmanna er í orlofi á hverjum tíma og margir eru úrvinda eftir nýafstaðinn faraldur. Þá er óvissa um hversu margir myndu gefa kost á sér í bakvarðasveit á þessum árstíma,“ er meðal þess sem segir í áhættumatinu.

„Starfsfólk Landspítala eru miklir fagmenn og sýndu einstakan samtakamátt og útsjónarsemi í baráttunni við COVID. Flotinn er
þreyttur og þarf að hvílast en fyrirsjáanlega þarf að kalla fólk inn úr sumarleyfi ef ný bylgja fer af stað.

Önnur ógn er falin í því að spítalinn getur ekki starfað eðlilega ef fjöldi COVID sjúklinga er kominn yfir 3 og vaxandi. Þá er hann um leið verr í stakk búinn til að sinna ferðamönnum sem til hans leita af öðrum orsökum en COVID en undanfarin ár hefur verið aukið álag á allt heilbrigðiskerfið á sumrin vegna ferðamannastraumsins,“ segir þar ennfremur.

Már Kristjánsson yfirlæknir skrifar undir áhættumatið.

Í áhættumatinu kemur fram að hafa þurfi í huga, að ekki sé hægt að útskrifa COVID greinda til síns heima, fyrr en öll veikindi eru
yfirstaðin og þeir ekki lengur smitandi (kröfur Alþjóða heilbrigðisreglugerðarinnar). Ef flytja þurfi COVID veikan ferðamann til síns heima þurfi sérútbúna sjúkraflugvél.

„Ferðamenn þurfa því að vera mjög vel tryggðir fyrir komuna hingað. Samkvæmt algengum tryggingaskilmálum er óljóst hvort venjulegar heilbrigðistryggingar gildi í heimsfaröldrum,“ segir þar ennfremur.

Fyrri faraldur fyrst og fremst Íslendingar

Farsóttanefnd spítalans segir að fyrri faraldur veirunnar hafi fyrst og fremst byggst upp af Íslendingum, með fasta búsetu og gott stuðningsnet.

„Þar að auki, var aldursdreifing og tíðni undirliggjandi sjúkdóma hagstæð. Mikil vinna rakningateymis, beiting ítrustu sóttvarnaaðgerða og mikil þátttaka í þeim dró hratt úr samfélagssmiti. Þetta gerði kleift að ná hámarksárangri af starfi COVID göngudeildar og úthringiteymis, með lágmörkun á innlögnum á Landspítala.

Búast má við að strax við greiningu fyrstu nýrra tilfella, þurfi Landspítali að byrja að trappa niður almenna starfsemi til að undirbúa móttöku COVID grunaðra/staðfestra og eins að styrkja starfsemi COVID göngudeildar.

Áætlanir um stórfelldan innflutning ferðamanna frá áhættusvæðum (allt að 100.000 á mánuði) geta skapað nokkuð frábrugðna mynd frá fyrri faraldri og í raun spurning hvort nota eigi tölur (allar mun hærri) um tíðni innlagna/dauðsfalla frá upprunalandi við undirbúning. Setur þetta mikinn þrýsting á upplýsingagjöf fyrir og við komu ferðamanna til landsins, aðgengi að upplýsingasíma 24/7 um heilbrigðisþjónustu og viðbrögð við einkennum og auka/bæta viðbúnað allra heilsugæslu- og heilbrigðisstofnana, úrræði almannavarna og Rauða Kross Íslands um allt land. Þá er rétt að huga að því að kaupa inn meira af hlífðarbúnaði.

Jafnvel þó einungis leggist inn sjúklingar með grun um COVID sem reynast síðan neikvæðir, þá taka þeir meiri bjargir en aðrir og valda þannig keðjuverkun á aðra starfsemi.

Styrkja þarf marga lykilþætti í starfi Landspítala til dæmis varðandi greiningargetu og afköst, aðstöðu, starfsfólk og starfsemi. En þrátt fyrir að það væri gert, er ljóst að fáir innlagðir ferðamenn munu hafa talsverð áhrif á daglega starfsemi Landspítala og draga fljótt úr getu til að sinna venjubundinni þjónustu, sem þó er í lágmarki yfir sumartímann.“