Ríflega hundrað manns komu saman á Austurvelli í dag til þess að krefjast afsagnar þingmannanna sex sem sátu á Klausturbar í nóvember.
Píratar voru áberandi í hópi skipuleggjenda fundarins. Skráðir ábyrgðarmenn á fésbókarsíðu mótmælanna voru Halldór Auðar Svansson fyrrv. borgarfulltrúi Pírata, Rannveig Tenchi varaborgarfulltrúi Pírata, Sindri Viborg fyrrv. formaður framkvæmdaráðs Pírata og Bára Halldórsdóttir sem tók upp samræðurnar á Klausturbar.
Á síðunni segir: „Nú er komið nóg, við segjum nei, hingað og ekki lengra. Siðleysi þingmanna er ekki liðið, spillingin er ekki liðin! Sýnið a.m.k. örlitla virðingu fyrir Alþingi Íslendinga og hypjið ykkur af þingi!“
Mikill fjöldi sótti mótmæli vegna Klausturbarsmálsins í byrjun desember á Austurvelli, en Ríkisútvarpið telur að á fundinum í dag hafi verið ríflega hundrað manns, sem er fremur fámennt miðað við mótmælafundi sem haldnir hafa verið á Austurvelli seinni ár.