Fásinna að fara í verkföll sem beindust að ferðaþjónustu

Gylfi Zoega prófessor.

Gylfi Zoega, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, segir að ætli Íslendingar sér að reyna við lággjaldaflugfélagarekstur á ný eftir gjaldþrot Wow air þurfi það félag að vera staðsett erlendis.

„Þeir þyrftu þá að gera það með höfuðstöðvar annars staðar, þar sem íslensk vinnulöggjöf og íslenskir kjarasamningar eiga ekki við. Flest fyrirtæki á Íslandi sem ná einhverri drift koma sér út úr okkar hagkerfi; má þar nefna fyrirtæki eins og Marel og Össur, auk stórra fyrirtækja í sjávarútvegi sem eru að miklu leyti fyrir utan krónuhagkerfið,“ segir Gylfi í Morgunblaðinu í dag. 

Gylfi situr í peningastefnunefnd Seðlabankans og í fyrra sendi hann frá sér greinargerð fyrir forsætisráðherra um stöðuna á vinnumarkaði og svigrúm til launahækkana.

„Það var auðvitað fásinna að fara í verkföll sem sérstaklega beindust að þessari viðkvæmu grein sem greiðir svona há laun miðað við það sem sömu stéttir fá annars staðar. Það eru takmörk fyrir því hvað hægt er að greiða miklu hærri laun fyrir sömu þjónustu í einu landi, “ segir Gylfi og telur verkföllin hafa komið illa niður á flugfélaginu WOW í sínum lífróðri.

Staðreyndin sé að ferðaþjónustan sé láglaunagrein um allan heim og Ísland sé mjög dýrt fyrir slíkar greinar. Íslensk flugfélög eigi erfitt í samkeppni við fyrirtæki frá láglaunalöndum á borð við Ungverjaland og Pólland.

„Það er þungbært að á sama tíma og þessi unga atvinnugrein er að berjast áfram sé verið að meiða hana með verkföllum. Því miður er þetta dæmi um marxíska hugsun sem hluti forystumanna verkalýðshreyfingarinnar aðhyllist,“ segir Gylfi.