Fasteignaverð heldur verðbólgunni uppi

Byggingaframkvæmdir í höfuðborginni. / Viljinn: Rúnar Gunnarsson.

Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,47% milli mánaða í september og mælist verðbólga nú 4,4% í samanburði við 4,3% í ágúst. Vísitala neysluverðs án húsnæðis hækkaði um 0,19% og mælist 2,9% verðbólga á þann mælikvarða.

Þetta kemur fram í Hagsjá Landsbankans, þar sem bent er á að haft hafi mestu áhrif til hækkunar reiknuð húsaleiga (+1,7% milli mánaða, +0,29% áhrif á vísitölu) og föt og skór (+4,1% milli mánaða, +0,15% áhrif). Mestu áhrif til lækkunar höfðu flugfargjöld til útlanda (-7,0% milli mánaða, -0,11% áhrif). Breytingin milli mánaða var í samræmi við væntingar, en greiningardeild Landsbankans hafði spáð 0,5% hækkun milli mánaða.

„Það var tvennt sem kom á óvart í tölunum. Í fyrsta lagi hækkaði kostnaður við að búa í eigin húsnæði (reiknuð húsaleiga) mun meira en við áttum von á. Í öðru lagi lækkuðu húsgögn og heimilisbúnaður milli mánaða, en við áttum von á hækkun.

Í septembertölunum sáum við áframhald á þeirri þróun sem hefur verið ráðandi það sem af er ári að framlag innfluttra vara er að minnka á sama tíma og framlag húsnæðiskostnaðar og þjónustu eykst. Þannig er ársverðbólgan svipuð í september og í janúar (4,4% í stað 4,3%) meðan framlag innfluttra vara hefur dregist saman um 1,4 prósentustig (úr 2,3% í 0,9%). Framlag húsnæðis hefur á þessu tímabili aukist um 1,1 prósentustig (úr 0,8% í 1,9%) og framlag þjónustu hefur aukist um 0,7 prósentustig (úr 0,5% í 1,1%),“ segir enn fremur í hagsjánni.