Fékk drög að frétt RÚV um húsleit til yfirlestrar daginn fyrir húsleitina

Ingibjörg Guðbjartsdóttir. / Vb-mynd/HAG

Úttekt Innri endurskoðanda Seðlabankans á pósthólfi ónafngreinds starfsmanns Seðlabankans, væntanlega Ingibjargar Guðbjartsdóttur, fv. framkvæmdastjóra gjaldeyriseftirlits Seðlabankans, leiddi í ljós tölvusamskipti við fréttamann Kastljóss Ríkisútvarpsins daginn fyrir margfræga húsleit Seðlabankans og Sérstaks saksóknara í höfuðstöðvar Samherja og fjölmargra tengdra fyrirtækja.

Í skýrslu endurskoðandans, sem hefur nú verið birt á vefsvæði Seðlabankans, segir um þetta efni:

Við yfirferð afrits af tölvupósthólfi frá 28.09.2013 sjást samskipti hans við starfsmann Ríkisútvarpsins. Þann 20.02.2012 óskar starfsmaður Ríkisútvarpsins eftir fundi vegna skoðunar Kastljóss á viðskiptum tengdra aðila með sjávarafurðir. Jafnframt er greint frá því að Kastljós hafi í höndum gögn sem þau vilji sýna gjaldeyriseftirlitinu. Sá fundur er haldinn
þann 21.02.2012.

Ekki er tilgreint í gögnum gjaldeyriseftirlitsins hverjir sátu fundinn auk og
starfsmanns Ríkisútvarpsins. Fram kemur að farið er yfir upplýsingar starfsmanns Ríkisútvarpsins er varða og að hann afhendir gögn sem vistuð eru í sérstakri möppu á vinnusvæði gjaldeyriseftirlitsins.

Helgi Seljan, fréttamaður Kastljóssins.

Í kjölfarið má sjá samskipti í tölvupóstum á milli starfsmanns Ríkisútvarpsins og á tímabilinu 26. febrúar til 26. mars 2012.

Þann 26. mars kl. 11:00 sendir starfsmaður Ríkisútvarpsins póst með efnisatriðinu Textinn. Þar segir:

„Sæl. Hér er textinn, örlítið endurskrifaður. Farðu yfir þetta og láttu mig vita sem allra, allra fyrst.

Kastljós lagði gögn varðandi afurðasölu fyrir gjaldeyriseftirlit Seðlabankans á dögunum og óskaði eftir mati eftirlitsins á því hvort um lögbrot væri að ræða. Forstöðumenn eftirlitsins fengust ekki til að leggja mat á málið á þeim tímapunkti. Eftir því sem næst verður komist hófst þó í framhaldinu rannsókn á málinu sem leiddi til húsleitar á skrifstofum í Reykjavík og á Akureyri í morgun með aðstoð embættis sérstaks saksóknara. Gera má ráð fyrir því að rannsóknin beinist nú að öllum útflutningi síðustu misserin og einnig skilum fyrirtækisins á gjaldeyri til landsins. Rannsókn málsins er sú umfangsmesta í sögu gjaldeyriseftirlitsins.“

Í minnisblaði endurskoðandans segir einnig að við yfirferð á tölvupósti starfsmann bankans frá 28.09.2013 hafi komið í ljós tölvupóstar sem staðfesta samskipti hans við starfsmann Ríkisútvarpsins á tímabilinu 20.02.2012 – 26.03.2012 þar á meðal tölvupóstur sem gefur til kynna að Ríkisútvarpið hafi verið upplýst um fyrirhugaða húsleit á starfsstöðvum þann 26.03.2012 eða deginum áður en húsleit hófst.