„Félagsskapurinn er um fullveldismálin, að standa vörð um fullveldi Íslands. Orkupakkamálið varð kannski neistinn sem kveikti ástríðuna hjá ákveðnum hópi, sem ætlar nú að láta verða af því að stofna félagið,“ sagði Ólafur Hannesson, þekktur sem Óli á Hrauni, en Viljinn náði tali af honum í tengslum við fyrirhugaðan stofnfund Félags sjálfstæðismanna um fullveldismál, nk. sunnudag.
Hann gat því ekki svarað því hve langur aðdragandi hugmyndarinnar hafi verið. „Ég var beðinn um að taka að mér fundarstjórn á fyrirhuguðum fundi, þannig kom ég inn í hópinn, en það var bara frekar nýlega,“
„Tilefnið er að ná utan um þann hóp Sjálfstæðismanna sem er óánægður og telur að flokkurinn sé að villast af leið. Að vera afl innan flokksins sem reynir að halda honum á réttri braut, í takt við grunnstefnu Sjálfstæðisflokksins,“ sagði hann, spurður um tilefnið.
„Það eru margir sem koma að þessu og mismunandi áherslur“, sagði Ólafur, spurður um fjölda áhugasamra, „Það er svona heilt yfir, að fólki finnst ekki vera hlustað nægilega á hinn almenna flokksmann í dag, og þykir það miður.“
Finnst leitt að sjá auglýsingunni snúið upp í eitthvað ljótt
Varðandi auglýsinguna fyrir fundinn, og þá umræðu sem hefur skapast um myndina á henni, sagði Ólafur:
„Þetta er gömul forsíða úr Morgunblaðinu, frá 5. júlí 1942, í tengslum við sjálfstæðisbaráttuna sem þá var í gangi. Þetta tengist ekki þjóðernishyggju eða neinu slíku, það er bara verið að horfa í grunngildin. Það er leitt að sjá það að menn taki eitthvað eins og auglýsingu fyrir fundinn og snúi henni upp í eitthvað ljótt. Það er mjög leiðinlegt að sjá.“