„Félagshagfræðileg“ steypa og enn ekkert ákveðið með Sundabraut

Dagur B. Eggertsson, fv. borgarstjóri og Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra við undirritun yfirlýsingar um lagningu Sundabrautar. Þrátt fyrir það er hún enn fórnarlamb endalausra tafaleikja stjórnmálamanna sem tala nýlensku.

Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri í Reykjavík undirrituðu í vikunni enn eina yfirlýsingu um lagningu Sundabrautar. Sundabrautin hefði vitaskuld átt að vera löngu komin, enda stór hluti söluandvirðis Símans árið 2006 eyrnamerktur henni, en samkvæmt nýjasta samkomulaginu er nú „stefnt“ að því að framkvæmdir þessa mikilvægu samgöngbót hefjist árið 2026 (ekki á næsta kjörtímabili, heldur því næsta þar á eftir) og að brautin verði tekin í notkun árið 2031, eða eftir áratug.

Eins og oft áður var yfirlýsingin innihaldslítil, þótt ráðherrann og borgarstjórin væru glaðbeittir í myndatökunni. Sammælst er um að Sundabraut verði lögð alla leið í Kjalarnes í einni samfelldri framkvæmd og að alþjóðleg hönnunarsamkeppni verði haldin um útlit Sundabrúar, verði hún fyrir valinu. Í yfirlýsingunni segir að næsta skref sé að gera „félagshagfræðilega greiningu“ á þverun Kleppsvíkur en að henni lokinni verði hafist handa við að undirbúa breytingar á aðalskipulagi borgarinnar, sem feli í sér endanlegt leiðarval Sundabraut.

Einmitt það já. Áfram skal semsagt beðið. Fyrst á að taka nokkur ár í eitthvað sem heitir á uppskrúfuðu stofnanamáli „félagshagfræðileg greining“ áður en ákveðið er hvort brú eða göng verða fyrir valinu, en þar á milli liggur munur í kostnaði upp á fimmtán milljarða eða svo. Ríkið vill brú en borgin göng og þar er málið í reynd stopp þrátt fyrir enn eina viljayfirlýsinguna.

„Sundabraut mun dreifa álagi, leysa umferðarhnúta og verður gríðarleg samgöngubót fyrir alla þá sem ferðast til og frá höfuðborgarsvæðinu – og fyrir alla ferðamáta. Brúin verður aðgengileg fyrir gangandi og hjólandi og verður kennileiti borgarinnar,“ sagði Sigurður Ingi við þessi tímamót og er greinilega á því að byggja brú, enda samgönguráðherrar frægir fyrir að reisa sér minnisvarða með slíkum mannvirkjum, samanber Halldór E. Sigurðsson og Borgarfjarðarbrúna.

Vandinn liggur hins vegar í því að borgarstjórinn er ekkert spenntur fyrir brú. Hann vill göng, en fagnar samt yfirlýsingunni og veit sem er að íbúar í nærliggjandi hverfum eru sama sinnis eftir að ódýrasti valkosturinn fyrir legu Sundabrautar var tekinn út myndinni með uppbyggingu nýs íbúðahverfis, Vogabyggðar við Gelgjutanga.

„Ég fagna þessari yfirlýsingu. Það er mikilvægt að leiðarval og undirbúningur Sundabrautar sé í traustum og góðum farvegi og að verkefnið sé unnið í víðtæku samráði. Þessi yfirlýsing tryggir það og undirstrikar mikilvægi samráðs við íbúa og hagsmunaaðila í næstu skrefum. Sundagöng og Sundabrú eru áfram megin valkostirnir. Í kjölfar félagshagfræðilegrar greiningar tekur við frekari samanburður og rýni á öllum umhverfisþáttum og mótvægisaðgerðum vegna hugsanlegra neikvæðra áhrifa af umferð fyrir nærliggjandi hverfi. Yfirlýsingin tryggir einnig að hagmunir almenningssamgangna, gangandi og hjólandi verða teknir inn í myndina ásamt hafnarstarfsemi,“ segir Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri.

Í vetur var kynnt skýrsla starfshóps um legu Sundabrautar, en í henni sátu fulltrúar Vegagerðarinnar, Reykjavíkurborgar, Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og Faxaflóahafna. Þar voru metnir tveir valkostir við þverun Kleppsvíkur, annars vegar Sundabrú, sem tengist Sæbraut til móts við Holtaveg og hins vegar Sundagöng.

Niðurstaða hópsins var að Sundabrú væri um 14 milljörðum króna ódýrari kostur en Sundagöng miðað við frumkostnaðaráætlun, auk þess sem brúin hefði ýmis jákvæð áhrif umfram göngin, s.s. á heildarakstur og tímasparnað umferðar á höfuðborgarsvæðinu, almenningssamgöngur, hjóla- og gönguleiðir. Jarðgöng myndu á hinn bóginn hafa nokkuð minni sjónræn áhrif og brúarframkvæmdir hefðu meiri áhrif á hafnarstarfsemi á framkvæmdatíma. Ein af forsendum beggja leiða er að Sæbraut verði lögð í stokk.

Fjármögnun með veggjöldum

Í yfirlýsingunni er staðfest að Sundabraut verði fjármögnuð með veggjöldum, enda lofaði Sigurður Ingi því sérstaklega fyrir síðustu kosningar að berjast gegn vegatollum, og ekki er gert ráð fyrir fjármögnun framkvæmdarinnar úr ríkissjóði. Sundabraut er meðal sex samgöngumannvirkja sem falla undir lög um samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir sem heimila að eiga samvinnu við einkaaðila um fjármögnun, hönnun, undirbúning og framkvæmdir ásamt viðhaldi og rekstri í tiltekinn tíma. Gjaldtaka skal þó ekki hefjast fyrr en framkvæmdum lýkur og stendur að hámarki í 30 ár.

Sömuleiðis kveður yfirlýsingin á um að tengingar Sundabrautar við gatna- og stígakerfi borgarinnar, sem með skýrum hætti leiða af framkvæmdinni, greiðist af Sundabrautarverkefninu en ekki úr borgarsjóði.