Felldu tillögu Baldurs um að birta öll laun, þóknanir og kostnaðargreiðslur

Baldur Borgþórsson, varaborgarfulltrúi Miðflokksins.

Tillaga Miðflokksins um uppsetningu nýrrar upplýsingasíðu um öll laun, þóknanir og kostnaðargreiðslur borgarfulltrúa og varaborgarfulltrúa var felld á fundi borgarstjórnar í gær.

„Sá leiði atburður átti sér stað á fundi borgarstjórnar í gær, sem jafnframt var síðasti fundur ársins, að meirihluti Vg-C-P-Sf kom í veg fyrir afgreiðslu frumvarps Miðflokksins um uppsetningu nýrrar upplýsingasíðu um öll laun, þóknanir og kostnaðargreiðslur borgarfulltrúa og varaborgarfulltrúa.

Síða þessi átti að vera með sambærilegum hætti og Alþingi setti upp í ársbyrjun gagnvart þingmönnum og er til fyrirmyndar,“ segir Baldur Borgþórsson varaborgarfulltrúi í yfirlýsingu.

Baldur hefur einn kjörinna fulltrúa birt opinberlega launaseðil sinn frá Reykjavíkurborg hver mánaðarmót og hvatt aðra til að gera slíkt hið sama.

„Alþingi á hrós skilið fyrir þá flottu vinnu sem þar liggur að baki.
Það er leiðara en orðum taki að það góða fordæmi sem Alþingi setti þar skuli hafa verið hafnað af flokkum í borgarstjórn sem stæra sig af að hafa gagnsæi í öndvegi,“ segir hann.

Geti fóðrað jólaköttinn á Lækjartorgi

Hann segir að þess í stað eigi að birta texta um réttindi borgar- og varaborgarfulltrúa, en samkvæmt honum eru hæstu heildarlaun kr.1,090,192,- og engar uppl um ferðakostnað, dagpeninga né nokkurn hlut annan.

„Þarf vart að fara orðum um að þessar tölur standast enga skoðun.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Flokks fólksins studdu frumvarp okkar heils hugar og börðust með okkur í orði og á borði. Sósíalistar sáu sér af eitthverjum ástæðum ekki fært að berjast með okkur og sátu hjá við atkvæðagreiðslu,“ segir Baldur og bætir við að þar með hafi gagnsæi og góðir stjórnsýsluhættir farið í jólaköttinn, væntanlega þennan á Lækjartorgi.

„Ég legg því til að á Þorláksmessu taki borgarfulltrúar Vg-C-P-Sf sig til, mæti á Lækjartorg og fóðri þar jólaköttinn hver með sínu afriti af frumvarpinu. Sósíalistar geta svo staðið hjá,“ segir Baldur.