„Það er of snemmt að fullyrða að fylgi stjórnarinnar hafi dalað. Ný könnun Maskínu bendir vissulega til þess, en það gæti líka verið slembisveifla,“ segir Ólafur Þ. Harðarson prófessor í stjórnmálafræði í samtali við Viljann þegar hann er spurður hvort minnkandi vinsældir ríkisstjórnarinnar geti verið nýrri COVID-19 bylgju að kenna og deilum um viðbrögð við henni.
Kosið verður til alþingis í lok september og viðbúið er að nýjustu vendingar í faraldrinum geti haft þar áhrif. Ekki aðeins gæti verið erfitt að skipuleggja kosningar og kosningabaráttu í miðjum faraldri, heldur gætu orðið átök um viðbrögð við þessari nýjustu bylgju og sprengingu sem orðið hefur í smitum eftir að slakað var á aðgerðum á landamærunum.
„Ný bylgja gæti skipt miklu í komandi kosningabaráttu, en enn er óljóst hvernig bylgjan þróast og hvernig flestir flokkar innan og utan ríkisstjórnar bregðast við henni. Afstaða flokka til sóttvarna á næstunni gæti líka haft áhrif á stjórnarmyndun eftir kosningar,“ segir Ólafur ennfremur.
Samkvæmt könnun Maskínu, sem Stöð 2 greindi frá í fréttum sínum í gærkvöldi, yrði Sjálfstæðisflokkurinn áfram fjölmennastur á þingi með fjórtán þingmenn, VG, Samfylking og Píratar fengju níu þingmenn hver, Viðreisn átta, Framsókn sjö, Sósíalistaflokkurinn fjóra, Miðflokkur þrjá og Flokkur fólksins engan.
Þar með væri ríkisstjórnin fallin með aðeins 30 þingmenn af 63. Mestu munar um nokkurt fylgistap Sjálfstæðisflokksins milli kannana, en einnig dalar Framsóknarflokkurinn aðeins. Sósíalistaflokkurinn bætir nokkuð við sig og mælist með 6,3%. Flokkur fólksins myndi þurrkast út af þingi, yrði þetta niðurstaðan og Miðflokkurinn er einnig í hættu að fara sömu leið.