Grísk stjórnvöld hyggjast grípa til ýmissa takmarkana á samkomuhaldi og athafnafrelsi eftir að opnun landsins á dögunum og aukinn straumur ferðamanna hefur skilað fjölda nýsmita af kórónuveirunni inn í landið.
Svo er nú komið að fleiri virk smit hafa nú greinst í Grikklandi en nokkru sinni þegar faraldurinn stóð sem hæst í vetur og vor. 2.205 virk smit eru nú i landinu, að sögn Lundúnablaðsins Telegraph.
Sextíu ný smit greindust sl. föstudag, sem er það mesta síðan 21. apríl sl. Yfir hundrað nýsmit undanfarna daga eru hjá erlendum ferðamönnum sem nýkomnir eru til landsins.
Enda þótt opnað hafi verið á dögunum fyrir ferðafólki innan Schengen-svæðisins er íbúum margra ríkja ennþá óheimilt að koma til Grikklands. Það á til dæmis við um Breta, en áform eru uppi um að þeir megi koma frá og með 15. þessa mánaðar.
Talsmaður stjórnvalda, Stelips Petsas, sagði að búast hefði mátt við aukningu í staðfestum smitum samfara opnun landsins. Það sé þó stefna að stjórnvalda að tryggja hagsmuni þeirra mörgu fremur en fáu með sóttvarnaráðstöfunum og við það verði staðið.
Til skoðunar er að taka upp harðara landamæraeftirlit, banna komu ferðamanna frá löndum sem glíma enn við faraldurinn og kerfisbundið eftirlit á krám og veitingastöðum.
Vegna nýrrar smitbylgju í Búlgaríu hefur þegar verið ákveðið að ferðamenn þaðan megi ekki koma til Grikklands nema þeir geti framvísað staðfestu vottorði þess efnis að þeir hafi verið skimaðir með neikvæðri niðurstöðu á síðustu 72 klst.