Ýmis Evrópulönd miða við fjölda staðfestra smita per hundrað þúsund íbúa næstliðnar tvær vikur í sóttvarnaráðstöfunum sínum og setja ferðatakmarkanir samkvæmt því. Eftir að Ísland hóf skimun fyrir kórónaveirunni á landamærum sínum hefur það rokið upp þennan lista, sem er reiknaður vikulega, og er nú komið í hóp þeirra landa þar sem krafist er tveggja vikna sóttkvíar við komuna til Lettlands.
Eins og sést á tilkynningu lettneskra stjórnvalda á myndinni hér að ofan er krafist tveggja vikna sóttkvíar hjá þeim sem koma frá löndum sem hafa meira en 16 smit per hundrað þúsund íbúa undanfarna fjórtán daga.
Beinlínis er ráðið frá því að lettneskir ríkisborgarar heimsæki lönd þar sem smit eru fleiri en 25 per hundrað þúsund íbúa.
Í þessum samræmdu tölum margra evrópskra ríkja er ekki tekið tillit til þess hvort um nýtt og virkt smit er að ræða, eða gamalt sem ekki er lengur virkt. Í mótefnamælingum hér hafa fjölmörg gömul smit greinst en miklu færri ný smit.
Frá og með 15. júní hafa 43.180 einstaklingar farið í sýnatöku við landamæraskimun. Af þeim hafa 15 greinst sem smitandi einstaklingar.
Alls eru nú 5 í einangrun á Íslandi, þar af 5 með virk smit.
Í gær voru tekin 1.639 sýni og reyndust sex þeirra vera jákvæð. Einn mældist með mótefni, en fimm bíða niðurstöðu mótefnamælingar.