Ferðamenn sem fóru víða undanfarna daga með indverska Delta-afbrigðið

Fimm greindust smitaðir af kórónuveirunni hér á landi á föstudag og um helgina, allir utan sóttkvíar. Viðkomandi voru einkennalausir og greindust við PCR-próf á leið frá landinu og því er eftir að rekja ferðir þeirra um landið undanfarna daga, en samkvæmt heimildum Viljans fóru sumir þeirra víða og því gæti nokkur hópur hafa verið útsettur fyrir smiti. Einhverjir hinna smituðu greindust með hið indverska Delta afbrigði veirunnar, samkvæmt því sem Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir staðfestir í samtali við Viljann.

Smitin nú eru þau fyrstu sem greinast í tæplega hálfan mánuð. Á miðnætti, aðfaranótt laugardags var öllum takmörkunum á samkomuhaldi aflétt og hafa margir landsmenn gert sér glaðan dag af því tilefni. Þá eru ferðalög innanlands komin á fullt, enda margir komnir í sumarfrí.

Næstkomandi fimmtudag verður hætt að skima þá sem framvísa vottorðum um bólusetningu eða fyrri sýkingu af völdum Covid-19. Einnig verður hætt að skima börn fyrir COVID-19 við komuna til landsins.

Þórólfur segir að nú muni koma í ljós hvort almenn bólusetning meðal landsmanna komi í veg fyrir útbreiðslu þessara sýkinga. Ekki sé loku fyrir það skotið, að Delta-afbrigðið indverska sé nú komið inn í íslenskt samfélag, en fram að þessu hefur það einungis greinst á landamærunum. Viðbúið er að nokkur fjöldi fólks þurfi að fara í sóttkví eftir því sem smitrakningu vindur fram.