Samtök ferðaþjónustunnar lýsa yfir vonbrigðum með að sjávarútvegsráðherra hafi í vikunni undirritað reglugerð sem heimilar áframhaldandi veiðar á langreyði og hrefnu til næstu fimm ára, eða til ársins 2023.
Í yfirlýsingu frá SAF er bent á að frá því veiðar á langreyði hófust á nýjan leik árið 2009 hafi veiðarnar ekki verið sjálfbærar og taprekstur verið á starfseminni.
„Veiðar á stórhveli við Íslandsstrendur hafa um langt árabil verið mikið hitamál, ekki bara hér á landi heldur um allan heim. Þá er ljóst að óeining er í ríkisstjórninni um að gefið verið út áframhaldandi leyfi til veiða á langreyði.
Í aðdraganda ákvörðunarinnar óskaði sjávarútvegsráðherra eftir skýrslu frá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands, en skýrslunni var ætlað að meta þjóðhagsleg áhrif hvalveiða. Við gerð skýrslunnar var lítið sem ekkert tillit tekið til ferðaþjónustunnar – stærstu útflutningsatvinnugreinar þjóðarinnar – sem hlýtur að draga verulega úr vægi hennar og grafa undan ákvörðun sjávarútvegsráðherra. Fullyrða skýrsluhöfundar „að engar vísbendingar séu um að hvalveiðar hafi orðið til þess að margir hafi hætt við Íslandsferð“ og að „sennilega hafi hvalveiðar lítil áhrif á ferðamannastraum til landsins.“
Samkvæmt skýrslu Hagfræðistofnunnar námu útflutningstekjur af langreyði á árunum 2009 – 2017 um 11,3 milljörðum króna, eða tæplega 1,3 milljörðum króna á ári. Það er lægri upphæð en ferðaþjónusta skapar á dag í gjaldeyristekjur fyrir þjóðarbúið.
Á undanförnum árum hefur ferðaþjónusta vaxið jafnt og þétt upp í að vera lykilatvinnugrein hér á landi. Þrátt fyrir að nú séu blikur á lofti í umhverfi ferðaþjónustunnar og staðan sé viðkvæm er Ísland komið á kortið sem áfangastaður fyrir ferðamenn um allan heim. Það sama er ekki hægt að segja um hvalveiðar sem litnar eru hornauga víða um heim og jafnvel fordæmdar af stórum hluta heimsbyggðarinnar, enda banna alþjóðasamningar viðskipti við með hvalaafurðir á milli flestra þjóða. Markaðssvæðið er takmarkað við Noreg, Japan og Lýðveldið Palá. Markaðssvæði ferðaþjónustunnar er hins vegar heimurinn allur.
Með ákvörðun sinni um áframhaldandi veiðar á langreyði er sjávarútvegsráðherra að tefla á tvær hættur og fórna meiri hagsmunum fyrir minni. Skynsamlegra er að leyfa þeim útflutningsatvinnugreinum sem færa þjóðarbúinu hundruð milljarða króna í útflutningstekjur ár hvert að njóta vafans og stuðla að eflingu þeirra í stað þess að berja hausnum við steininn og halda úti atvinnugrein sem stendur ekki undir sér,“ segir ennfremur í yfirlýsingunni.
Í lok hennar kemur fram hörð gagnrýni á ráðherra og stjórnvöld vegna málsins:
„Áður en stórar ákvarðanir eru teknar – líkt og leyfi til hvalveiða eru – þarf að kanna til hlítar hvaða áhrif veiðarnar kunna að hafa á aðrar útflutningsatvinnugreinar þjóðarinnar. Byggja þarf á staðreyndum og gögnum í stað tilfinninga líkt og gert hefur verið í aðdraganda ákvörðunar sjávarútvegsráðherra. Þegar um er að ræða stærstu útflutningsatvinnugrein þjóðarinnar dugir ekki að byggja á orðalagi eins og „engar vísbendingar“ og „sennilega“ líkt og skýrsluhöfundar Hagfræðistofnunnar Háskóla Íslands gerðu þegar fjallað var um áhrif hvalveiða á straum ferðamanna til landsins.
Samtök ferðaþjónustunnar skora á stjórnvöld að gera úttekt á áhrifum hvalveiða á helstu viðskiptamarkaði ferðaþjónustu og annarra útflutningsatvinnugreina erlendis. Þannig er hægt að undirbyggja ákvarðanir sem hafa áhrif á þjóðarhag.“