Ferðaþjónustufyrirtæki, smá og stór, berjast í bökkum

Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar.

„Það er ekki hægt að einangra einstök fyrirtæki í ferðaþjónustu og beina aðgerðum gegn þeim og halda að áhrifin verði bara þar. Ferðaþjónusta er keðja af þjónustu margra fyrirtækja og einstaklinga og það langt út fyrir það sem vanalega flokkast sem ferðaþjónusta. Verkfall í einum þætti hennar hefur umsvifalaust áhrif á alla keðjuna og setur ferðalög og skipulagningu ferða um Ísland í uppnám.“

Þetta segir Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar. Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, hefur sagt að fyrstu verkfallsaðgerðir verkalýðsfélagsins komi til með að beinast gegn „hinum breiðu bökum ferðaþjónustunnar,“ eins og hann orðar það, það er, stórum fyrirtækjum á sviði þjónustu við erlenda ferðamenn á Íslandi.

Bjarnheiður segir áhugavert að vita hvar Ragnar og félagar ætla að finna breið bök í ferðaþjónustu um þessar mundir.

„Ferðaþjónustufyrirtæki, bæði stór og smá, berjast mjög mörg í bökkum um þessar mundir, eftir miklar launahækkanir frá árinu 2015 og áhrifa af sterku gengi krónu, sem hafa stórskert samkeppnishæfni íslenskrar ferðaþjónustu á alþjóðamörkuðum. Þetta vita allir, sem það vilja vita. Að brjóta ferðaþjónustu niður með verkföllum er ekki ávísun á launahækkanir langt umfram verðmætasköpun, heldur þvert á móti — það er ávísun á veruleg vandræði sem munu bitna á öllu atvinnulífinu og þjóðarbúinu í heild,“ segir hún.