Filippus prins er látinn, nálega hundrað ára að aldri

Filippus prins, drottningarmaður í Bretlandi, er látinn. Hann varð 99 ára og hefði orðið hundrað ára í júní næstkomandi. Breska ríkisútvarpið segir að þetta komi fram í tilkynningu frá Buckingham-höll.

Filippus var í Schleswig-Holstein-Sonderburg-Glücksburg-konungsættinni og fæddist inn í grísku og dönsku konungsfjölskyldurnar. Hann er sonarsonur Georgs 1. Grikklandskonungs og sonarsonarsonur Kristjáns 9. Danakonungs. Hann fæddist í Grikklandi en fjölskylda hans var gerð brottræk úr landinu þegar hann var ungbarn. Filippus hlaut menntun í Frakklandi, Þýskalandi og Bretlandi og gekk í breska sjóherinn árið 1939, þá 18 ára að aldri.

Hann trúlofaðist frænku sinni, Elísabetu prinsessu, að loknu seinna stríði og hafði þá afsalað sér öllum grískum og dönskum aðalstitlum og gerst breskur ríkisborgari. Hann tók upp ættarnafnið Mountbatten, sem afi hans og amma í móðurætt höfðu borið.

Þau Elísabet gengu í hjónaband þann 20. nóvember 1947. Stuttu fyrir brúðkaupið var hann gerður barón af Greenwich, jarl af Merioneth og hertogi af Edinborg. Filippus hætti virkri herþjónustu þegar Elísabet varð drottning árið 1952 og varð formlega breskur prins árið 1957.

Filippus átti fjögur börn með Elísabetu drottningu: Karl, Önnu, Andrés og Játvarð.

Filippus varð elsti karlmeðlimur bresku konungsfjölskyldunnar í sögu ríkisins og var maki bresks þjóðhöfðingja lengur en nokkur annar. Filippus lét af skyldum sínum sem prins þann 2. ágúst 2017 og settist í helgan stein og hefur glímt við vanheilsu undanfarið og m.a. þurft að leggjast inn á sjúkrahús af þeim sökum.