Finnar loka höfuðborgina af frá landsbyggðinni — ekki talið framkvæmanlegt hér

Sanna Marin forsætisráðherra Finnlands tilkynnti nú fyrir stundu að Uusimaa héraðið, sem inniheldur höfuðborgina Helsinki og nálæg sveitarfélög, verði lokað af frá restinni af landinu í þrjár vikur.

Landsmenn mega ekki ferðast milli héraðsins og annarra hluta landsins nema af mjög brýnum ástæðum. Gert er ráð fyrir að bannið taki gildi næstkomandi föstudag og standi til 19. apríl en málið verður fyrst afgreitt frá þinginu. Vöruflutningar verða þó áfram heimilir.

Athygli vekur að samskonar hugmyndir um lokun tiltekinna svæða hafa verið reifaðar hér á landi, en sóttvarnalæknir hafnað þeim, þar sem ekki sé framkvæmanlegt að koma þannig algjörlega í veg fyrir smit. Heimilislæknir á Raufarhöfn gagnrýndi það harkalega í samtali við Viljann í morgun.

Sjá: Heimilislæknir gagnrýnir sóttvarnalækni harðlega

Dómsmálaráðherra Finna, Anna-Maja Henriksson segir að tigangurinn sé sá að koma í veg fyrir smit og að þjóðin veikist öll á sama tíma þar sem heilbrigðiskerfið myndi ekki ráða við það.

Lögreglan mun fylgjast með ferðum inn og út úr héraðinu en að sögn dagblaðsins Helsingin Sanomat liggur ekki fyrir hvernig fólk geti fengið leyfi til að ferðast ef nauðsyn ber til.

Smit hefur enn sem komið er ekki dreifst mikið utan höfuðborgarsvæðisins og að sögn ráðherranna er tilgangur lokunarinar er að verja þá stöðu.

Forsætisráðherrann segir að íbúar svæðisins eigi að skila sér heim svo fljótt sem verða má.

Að sögn dómsmálaráðherrans er ferðafrelsið hluti af grundvallarréttindum borgaranna en rétturinn til lífs sé því þó æðri.