Finnst lítið varið í frumvarp Lilju: RÚV fari af auglýsingamarkaði

Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Ölfusi.

„Mér þykir lítið varið í frumvarp Lilju Alfreðsdóttur um bætt rekstrarumhverfi fjölmiðla og það kemur mér á óvart ef þingmenn Sjálfstæðisflokksins geta stutt það. Stefna Sjálfstæðisflokksins er enda ekki að auka hlutfall skatta (endurgreiðsla) í rekstri fjölmiðla eins og Lilja stefnir á, heldur að draga úr því. Stefna Sjálfstæðisflokksins er að Ríkisútvarpið fari af auglýsingamarkaði. Þar að auki vilja margir Sjálfstæðismenn og fleiri að fé sé fremur veitt til gerð íslensks efnis í gegnum samkeppnissjóði fremur en með ríkisrekstri.“

Þetta segir Elliði Vignisson bæjarstjóri í Ölfusi í pistli á heimasíðu sinni í dag. Hann bendir á að 260 starfsmenn RÚV hafi 6.600 milljónir króna til að reka miðilinn sinn í samkeppni við einkarekna fjölmiðla.

„Afstaða mín, og sennilega flestra Sjálfstæðismanna, er því ekki að gera þurfi breytingar þar sem starfsmenn Ríkisútvarpsins eru ekki standa sig. Afstaðan byggist fyrst og fremst á því að á meðan skattfé er notað í rekstur þá sé óeðlilegt að sá sami rekstur keppi við einkaaðila. Þeirri afstöðu fylgir stundum það álit að fjölmiðlun sé allt eins vel sinnt af einkaaðilum,“ segir hann.

Elliði bendir á að Sjálfstæðisflokkurinn hafi ályktað á landsfundi um að Ríkisútvarpið hverfi af auglýsingamarkaði og staðan núna sé broguð. Ekkert annað ríkisútvarp á Norðurlöndunum fái að vera á auglýsingamarkaði og einhver ástæða hljóti að vera fyrir því.

„Ég myndi því vilja sjá flokkinn minn stíga fram í takt við landsfundarályktun og beita sér fyrir því að Ríkisútvarpið fari af auglýsingamarkaði. Sjálfur myndi ég einnig vilja sjá að stórt hlutfall af því fjármagni sem í dag fer í rekstur RÚV færi í samkeppnissjóð þangað sem fjölmiðlafólk, listamenn, stjórnmálaskýrendur og allir aðrir geta sótt um í, óháð því hvert þeir svo selja efnið eða hvar þeir finna því framrás.

Ég er sannfærður um að það mikilvæga verkefni að halda á lofti íslenskri menningu á íslenskri tungu er síst verr komið hjá einkaaðilum en starfsmönnum ríkisins, svo góðir sem þeir nú samt eru. Verum óhrædd við að gera breytingar,“ segir Elliði Vignisson.