Fiskveiðiréttindi hafa bjargað fiskistofnum og aukið verðmæti

Þó svo að talsvert sé eftir, þá hefur mikill árangur náðst í fiskveiðistjórnun á grundvelli afmörkunar svæða og fiskveiðiréttinda einstakra aðila og samfélaga síðastliðin 40 ár. Þetta var á meðal þess sem fram kom, þegar einhverjir helstu sérfræðingar heims í auðlindahagfræði og fiskveiðistjórnun voru viðstaddir og héldu fyrirlestra í hátíðasal Háskóla Íslands á dögunum á alþjóðlegri ráðstefnu um fiskihagfræði. Hún var haldin af Félagsvísindasviði Háskóla Íslands, Rannsóknarsetri um nýsköpun og hagvöxt o.fl. til heiðurs Ragnari Árnasyni prófessor sjötugum. Það voru þeir Trond Bjørndal, Rögnvaldur Hannesson, Gordon Munro og James Wilen sem héldu framsögu á ráðstefnunni, auk afmælisbarnsins.

Bjørndal fór yfir það hvernig bláuggatúnfiskur í N-Atlantshafi og Miðjarðarhafi, einn verðmætasti fiskistofn heims, sem áður var í hættu, hefur rétt úr kútnum eftir ofveiði, með skynsamlegri fiskveiðistjórnun. Rögnvaldur ræddi hvarf og endurkomu síldarinnar, fiskistofns sem reisti sig við gegn öllum stærðfræðilegum líkum og benti þannig á óútreiknanleika og þann styrk sem náttúran býr yfir.

Aldursforsetinn Munro, sem í eina tíð kenndi m.a. Ragnari í Háskólanum í Bresku Kólumbíu, útskýrði hvernig leikjafræði getur nýst við að greina galla og hámarka möguleika farsællar samvinnu í flóknu umhverfi rétthafa fiskveiða. Hann nefndi til sögunnar samtök veiðirétthafa við strendur Vancouver Island í Kanada, sem hafa sín á milli stundað farsæla samvinnu og við frumbyggja á svæðinu.

Gísli Hauksson, Jónas Sigurgeirsson og Hannes Hólmsteinn Gissurarson sóttu ráðstefnuna.

Wilen fjallaði um strand- og handfæraveiðar um heim allan, en við annan og jafnvel enn flóknari vanda er við að eiga þar, en á kvótastýrðum úthafsveiðum. Fleiri fiskistofnar blandast við strendurnar en á úthafinu þar sem þeir eru afmarkaðri. Algengt er að fátækt og regluleysi hamli því að mögulegt sé að hvíla fiskistofna við strendur ríkja til að sporna gegn ofveiði og auka aflaverðmæti með því að leyfa smáfiskum að stækka upp í stærri og verðmætari afla. Til að leysa það mætti reyna að notast við einkaeignarrétt einstaklinga eða hópa yfir afmörkuðum svæðum. Það hafi lengi verið gert í Japan með góðum árangri.

Ragnar Árnason hélt að lokum ræðu þar sem hann þakkaði fyrir sig og fór yfir það sem gerst hefur í fiskveiðistjórnun á undanförnum fjórum áratugum, en prófessorsembætti í fiskihagfræði var stofnað við Háskóla Íslands árið 1989.

„Um árið 1980, voru nánast allir fiskistofnar heims á fallanda fæti, mjög mikið ofveiddir og hagnaðarvon í grein fiskveiða fór hratt dvínandi. Samkvæmt fáanlegum mælingum voru horfurnar dökkar og engin lausn í sjónmáli. En síðan þá hefur orðið alger viðsnúningur í greininni, og hann byggir á afhendingu fiskveiðiréttinda, í formi kvóta eða svæða, til einstakra aðila eða samfélaga. Þegar horft er um öxl, sjáum við að tekist hefur að stöðva þróun til verri vegar í heiminum og jafnvel væri hægt að segja að farið sé að örla á bata og vexti. Við sjáum að 25-30% af lönduðum afla, er nú stjórnað á grundvelli réttinda. Þessar fiskveiðar hafa sýnt fram á bættar veiðiaðferðir, sterkari fiskistofna og vaxandi verðmæti aflans. Bæði eigendur útgerða og sjómenn eru betur settir með bjartari framtíð en áður.“

Ragnar kvað helstu áskorun framtíðarinnar í fiskihagfræði vera að koma böndum á um helming fiskveiða þar sem fiskistofnar blandast og erfitt sé að notast við úthlutun einfaldra réttinda til verndar fiskistofnum. Hann bendir á að einig sé erfitt að notast við einkaeignarréttinn í þeim tilfellum þar sem að útgerðin er samsett af hundruðum þúsunda einstakra fiskimanna. Þarna er átt við fátækari ríki heims, þar sem fiskveiðistjórnun er aðkallandi til að vernda fiskistofnana og auka aflaverðmæti, þeim samfélögum til hagsbóta. Eitthvað annað þurfi að skoða, t.d. einhverskonar samfélags- og samvinnustjórnun. Hann þakkaði fyrirlesurum fyrir sitt framlag til þess árangurs sem þegar hefur náðst í heiminum, en þeir hafi verið á meðal frumkvöðla í þeirri þróun.

F.v. Rögnvaldur Hannesson, Corbett Grainger, Gordon Munro, Ragnar Árnason, Trond Bjørndal og James Wilen.