Fjárlögin 2019 samþykkt á þingi: Samfélagslegir innviðir styrktir verulega

Alþingi samþykkti nú áðan eftir þriðju umræðu, fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2019 sem lög frá Alþingi. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra lýsir ánægju með niðurstöðuna og segir betur ganga að styrkja innviðina en gert var ráð fyrir.

„Þegar við kusum í þingkosningum fyrir tveimur árum fann ég eins og líklega allir aðrir sem buðu sig fram sterkt fyrir því að fólk vildi tala um okkar sameiginlegu verðmæti og nauðsyn þess að við bæði pössuðum upp á og efldum það sem við höfum byggt upp og kemur við sögu í lífum okkar á hverjum degi; spítalana, skólana, vegina. Ég var á þeirri skoðun þá og líka þegar við kusum ári síðar að það yrði að gefa í og auka framlög til þess að styrkja samfélagslega innviði aftur verulega. Ég talaði á þeim tíma um að það þyrfti að auka framlögin um 40-50 milljarða á kjörtímabilinu. 

Það skiptir þess vegna máli að nú hefur ríkisstjórnin aukið framlög í fjölbreytt og mikilvæg málefni um 90 milljarða í tvennum fjárlögum. Við höfum aukið framlögin tvöfalt meira á tveimur árum en ég ræddi fyrir kosningar að þyrfti að gera á fjórum árum. Þetta er árangur sem skiptir máli. Við getum þetta af því að aðstæður hafa verið góðar í efnahagslífinu undanfarin ár. Og við gerum þetta af því að það skiptir máli fyrir fólkið í landinu,“ segir Katrín á fésbók nú síðdegis.

Verkefnin verða næg

„Það skiptir máli fyrir þá 2200 einstaklinga sem fá barnabætur á næsta ári af því að við hækkum þær um 16%, sem hefðu annars ekki fengið þær. Það skiptir líka máli fyrir alla hina sem fá hærri barnabætur á næsta ári. Það skiptir máli að geta endurskoðað almannatryggingakerfið, bætt kjör öryrkja og stutt þá til samfélagsþátttöku; að geta gert fólki það ódýrara að sækja sér læknisþjónustu; að löggæslan hafi verið efld til að geta sinnt rannsókn kynferðisbrota af þeim krafti sem við viljum. 

Það hefur sýnt sig að áhersla stjórnvalda allt frá hruni á að auka framlög til rannsókna og nýsköpunar hefur haft gríðarlega jákvæð áhrif, og nú tökum við enn frekari skref með því að tvöfalda þakið á endurgreiðslum vegna rannsóknar- og þróunarverkefna fyrirtækja. Framlög til bæði loftslagsmála og náttúruverndar eru stóraukin. Þetta skiptir máli fyrir framtíðina. Verðmætin í vegakerfinu eru nærri því að liggja undir skemmdum og það skiptir þess vegna verulegu máli að við höfum getað bætt í framlög til viðhalds vega. Það skiptir líka máli fyrir fólk út um allt land að við aukum við nýframkvæmdir og byggjum göng til að stytta vegalengdir og nýja vegi þar sem umferðaröryggi er ekki nægilega tryggt. 

Fyrir viku síðan fögnuðum við árs afmæli ríkisstjórnarinnar. Verkefnin verða næg það sem eftir lifir af kjörtímabilinu, en ég fagna bæði þeim árangri sem náðst hefur á liðnu ári og sem við sjáum fram á á næsta ári með fjárlögum 2019,“ segir forsætisráðherra.