Alls hafa nú fimmtíu manns látist af völdum COVID-19 hér á landi frá því faraldurinn barst hingað til lands í lok febrúar fyrir tveimur árum. Þar af hafa fjórir látist sl. viku; einn á Landspítala og þrír á hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð í Kópavogi þar sem stórt hópsmit kom upp á dögunum með þeim afleiðingum að fjöldi heimilismanna og starfsmanna smitaðist.
Kona á sjötugsaldri lést í gær á gjörgæslu LSH, að því er greint er frá á vefsíðu spítalans og þá létust tveir íbúar í Sunnuhlíð, báðir á níræðisaldri, fyrir helgi.
Metfjöldi smita á einum sólarhring greindist í gær, eða 1.856, meira en sex hundruð fleiri en daginn áður, og sýnir það að veiran geisar nú um samfélagið sem aldrei fyrr, enda þótt hlutfallslega veikist færri en áður alvarlega.
Ný reglugerð tekur gildi eftir helgi, þar sem einangrun vegna smits er stytt úr sjö dögum niður í fimm.