„10 nú réttindi fyrir íslensku þjóðina“ er yfirskriftin á kosningastefnuskrá Miðflokksins sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður flokksins og fv. forsætisráðherra kynnti í Hörpu fyrr í dag. Þar eru lagðar til margvíslegar aðgerðir til þess að jafna stöðu landsmanna, óháð búsetu eða aldri með beinum eingreiðslum og arðgreiðslum til allra Íslendinga. Vísaði Sigmundur Davíð til þess að vissulega væru tillögurnar róttækar, en þær væru líka framkvæmanlegar og benti á að hann hefði tvívegis áður kynnt framsæknar tillögur í Hörpunni sem síðar hefðu orðið að veruleika; fyrst með skuldaleiðréttingu heimilanna og síðar uppgjörum við þrotabú föllnu bankanna.
Meðal tillagna Miðflokksins er að verði ríkissjóður rekinn með afgangi fái allir fullorðnir íslenskir ríkisborgarar helming afgangsins endurgreiddan til jafns 1. desember árið eftir. Hinum helmingnum verði varið í endurgreiðslu skulda ríkissjóðs eða í varasjóð teljist það hagkvæmara
Á fullveldisdaginn, 1. desember ár hvert, fái hver fullorðinn Íslendingur greitt auðlindagjald. Fyrsta árið nemi greiðslan 100.000 krónum á verðlagi yfirstandandi árs. Stjórnvöld fjármagni greiðsluna með auðlindagjöldum og stuðli að hagkvæmri auðlindanýtingu. Með upphafsviðmiðinu er litið til þátta á borð við veiðigjöld, hagnað Landsvirkjunar og sölu losunarheimilda.
Öllum íslenskum ríkisborgurum, búsettum á Íslandi, 40 ára og eldri, bjóðist almenn heilbrigðisskimun á þriggja ára fresti þeim að kostnaðarlausu.
Ríkið veitir mótframlag sem gefur öllum tækifæri til að eignast húsnæði. Lóðaframboð verði aukið, stimpilgjöld afnumin og almenningur fái heimild til að setja 3,5 prósentustig af lífeyrisiðgjaldi sínu í sjóð sem nýta má til eigin fasteignakaupa.
Þá vill Miðflokkurinn að horfið verði frá stefnu sem gerir tekjulægra fólki erfitt fyrir að eiga eða reka eigin bíl og komast leiðar sinnar. Þetta verði gert með 25% lækkun bifreiðagjalda og því að heimiluð verði aukin notkun fyrirtækjabíla til að nýta bifreiðaflota landsmanna betur.
Lagt er til að þjóðin fái tækifæri til að taka þátt í endurreisn fjármálakerfisins og beina hlutdeild í því sem almenningur á nú þegar með því að þriðjungi hlutafjár í Íslandsbanka verði deilt jafnt á alla íslenska ríkisborgara sem verða lifandi fyrir árslok 2021. Heimilt verði að selja bréfin eftir lok árs 2023.
Miðað við núverandi markaðsvirði væri hlutur hvers og eins í Íslandsbanka nálægt 250.000 kr. Hlutur fjögurra manna fjölskyldu nemur því um einni milljón króna. Sá hlutur verði skattfrjáls, enda þegar eign landsmanna.
Þar sem skortur á innviðum eða aðrar aðstæður valda því að íbúar njóta ekki jafnræðis á við aðra skal það bætt. Til dæmis með fjárhagsaðstoð sem tryggi jafnt aðgengi að heilbrigðisþjónustu og námi. Jöfnun raforku- og húshitunarkostnaðar um land allt verði tryggð. Byggðarlögum skipt í fjóra flokka með tilliti til þess hversu
miklum hindrunum fyrirtæki mæta á hverjum stað. Í þeim byggðarlögum sem mæta mestum hindrunum verður tryggingagjaldið 0% en 6% þar sem þær eru minnstar. Í byggðarlögum þar sem íbúar búa við skerta þjónustu ríkisvaldsins munu þeir eiga rétt á skattaafslætti.
Eldri borgarar munu greiða skatt á sama hátt og aðrir. Sá hluti lífeyrisgreiðslna sem er fjármagnstekjur verður skattlagður sem slíkur. Lífeyrir og aðrar hliðstæðar bætur frá Tryggingastofnun verði miðaðar við
umsamin lágmarkslaun og hækka í takti við launavísitölu. Núverandi hindranir á atvinnu eldra fólks verði afnumdar. Frítekjumark atvinnutekna verður hækkað í 500.000 kr. á mánuði. Frítekjumark greiðslna úr lífeyrissjóði verður 125.000 kr. á mánuði.
Réttur allra Íslendinga til að komast í nauðsynlegar læknisaðgerðir verði tryggður og biðlistum eytt. Hafi sjúklingur þurft að bíða lengur en í 3 mánuði eftir aðgerð skal ríkið greiða viðkomandi bætur mánaðarlega. Á sama hátt ber ríkinu skylda til að veita öldruðu og veikburða fólki viðunandi búsetuúrræði.