Fjóla skoraði þingmanninn Þorstein á hólm og hafði betur

Niðurstaða er fengin í ráðgefandi oddvitakjöri Miðflokksfélagi Reykjavíkurkjördæmis suður sem stóð yfir í gær og dag. Fjóla Hrund Björnsdóttir, framkvæmdastjóri þingflokks Miðflokksins, og Þorsteinn Baldur Sæmundsson alþingismaður gáfu kost á sér sem oddvitar listans. Kosningu lauk klukkan 17 í dag laugardaginn 24. júlí 2021.

Þorsteinn var fyrir oddviti flokksins í kjördæminu, en komst ekki á lista uppstillinganefndar á dögunum eins og kunnugt er. Sá listi var hins vegar felldur á félagsfundi og til að leysa þá pattstöðu sem komin var upp, var ákveðið að efna til oddvitaprófkjörs. Kjörsókn var 90% í henni, samkvæmt upplýsingum flokksins, en heildarfjöldi atkvæða er þó ekki gefinn upp.

Fjóla Hrund Björnsdóttir hlaut: 58% atkvæða

Þorsteinn Baldur Sæmundsson hlaut 42% atkvæða

Auð og ógild atkvæði voru 0%

Fjóla Hrund er þar með sigurvegari þessara kosninga.

Niðurstöðurnar hafa verið sendar til uppstillingarnefndar  kjördæmisins sem mun leggja fram framboðslista til samþykktar á félagsfundi Miðflokksfélags Reykjavíkurkjördæmis suður n.k. mánudag, bæði á Zoom og á skrifstofu flokksins.

Kosið verður um listann bæði rafrænt og á fundinum sjálfum.