Fjöldasamkomur umfram tvö þúsund manns bannaðar út ágúst

Lögreglan.

„Þar sem að vel hefur gengið í að hindra framgang veirunnar hér á landi þá er líklegt að ónæmi í samfélaginu gegn henni sé lítið en ætlunin er að fá frekari staðfestingu á því með mótefnamælingum. Þetta þýðir að ef slakað er um of á þeim aðgerðum sem í gangi eru er hætt við að faraldurinn blossi upp aftur.“

Þetta segir í minnisblaði Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis til Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra. Eins og Viljinn skýrði frá fyrr í dag, leggur hann til að þeim takmörkunum á samkomum sem nú eru í gangi verði aflétt í nokkrum skrefum næstu mánuði með 3ja-4ja vikna millibilum.

„Einnig er lagt til að fjöldasamkomur hér á landi verði takmarkaðar við að hámarki 2.000 einstaklinga a.m.k út ágúst n.k. Tillögur að nánari útfærslu á þessu verða sendar síðar.

Ég legg hins vegar áherslu á að áfram þarf að greina hratt einstaklinga með COVID-19, einangra sýkta, rekja smit og beita sóttkví á einstaklinga sem grunaðir eru um smit. Þessu þarf að viðhalda a.m.k. út árið 2020. Jafnframt þarf að viðhalda leiðbeiningum til einstaklinga um sóttvarnir sem einkum snúa að handþvotti og almennu hreinlæti, viðhaldi á nándarmörkum (2 m) og verndun viðkvæmra hópa.

Mjög mikilvægt er einnig að grípa til ráðstafana sem miða að því að hindra að veiran berist hingað til lands með erlendum eða íslenskum ferðamönnum. Nú er í gangi vinna starfshóps undir forystu ríkislögreglustjóra til að kanna hvernig slík gæti verið útfært.

Þegar niðurstaða starfshópsins liggur fyrir er von á frekari tillögum frá sóttvarnalækni varðandi þær aðgerðir,“ segir ennfremur í minnisblaði sóttvarnalæknis.

Nokkur atriði sem haldast óbreytt:

  • Undanþágur fyrir efnahagslega mikilvæg fyrirtæki verða óbreyttar.
  • Líkt og hingað til verður heimilt að taka á móti 100 einstaklingum í matvöruverslunum og lyfjaverslunum hverju sinni að uppfylltum tilteknum skilyrðum.
  • Sundlaugar og líkamsræktarstöðvar verða áfram lokaðar.
  • Reglur um skemmtistaði, krár, spilaasali og svipaða starfsemi verða óbreyttar og slíkir staðir því áfram lokaðir.
  • Fyrirmæli landlæknis frá 23. mars sl. um valkvæðar skurðaðgerðir eða aðrar ífarandi aðgerðir haldast óbreytt.

Fylgiskjöl: