Fjöldi fólks fagnaði 4 ára afmæli Viðreisnar í Heiðmörk

Tveir fyrstu formenn Viðreisnar í Heiðmörk, þau Benedikt Jóhannesson og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir. Nú aldar köldu milli þeirra og Viðreisn líður fyrir.

Viðreisn hélt upp á 4 ára afmæli sitt með pompi og pragt í Heiðmörk fyrr í dag. Fjöldi fólks kom þar saman og gróðursetti tré í nýjum lundi Viðreisnar.

Úrslit nafnasamkeppni voru tilkynnt og hlaut lundurinn nafnið Frjálslundur, sem er vísun í eina af grunnstoðum Viðreisnar; frjálslyndið. Í tilefni dagsins afhjúpaði flokkurinn einnig uppfært kennimerki, sama sexhyrnda blómið og áður en nú appelsínugult og með nýrri leturgerð.

Á vef Viðreisnar segir að mikil ánægja hafi verið meðal gesta og sagði Þorgerður Katrín, formaður Viðreisnar, að það hafi verið mjög einkennandi fyrir flokkinn að fólk hafi ekki látið veðrið stoppa sig í að mæta til leiks og gera gagn í tilefni af afmælinu.

„Viðreisn hefur látið til sín taka frá stofnun og haft jafnrétti, fjölbreytt tækifæri, alþjóðasamstarf,  gegnsæi og samvinnu í forgrunni í störfum sínum.

Viðreisn mun halda áfram að berjast fyrir stöðugum efnahag fyrir fjölskyldurnar í landinu, með mannúð og Evrópuhugsjón í fararbroddi. Við viljum koma á framfæri þökkum fyrir stuðninginn og samveruna síðustu fjögur árin og hlökkum til framhaldsins,“ segir þar ennfremur.