Fjölmiðlafrumvarp Lilju komið fram: Stutt við öflun og miðlun frétta

Lilja Dögg Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra. /Viljinn: Rúnar Gunnarsson.

Frumvarp um opinberan fjárstuðning við öflun og miðlun frétta og fréttatengds efnis var kynnt í dag. Það er unnið á grundvelli stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar um að bæta þurfi rekstrarumhverfi fjölmiðla og því meginmarkmiði stjórnvalda að efla lýðræðislega umræðu og lýðræðisþátttöku. Frumvarpsdrögin má nú finna í Samráðsgátt stjórnvalda þar sem áhugasamir eru hvattir til þess kynna sér efni þess og senda inn umsagnir og ábendingar, að því er segir í tilkynningu frá menntamálaráðuneytinu.

„Hér á landi hefur ríkið ekki veitt fjölmiðlum beinan stuðning eins og lengi hefur verið gert annars staðar á Norðurlöndunum og víðar í Norður-Evrópu. Fjölbreyttir og traustir fjölmiðlar eru mikilvægir fyrir lýðræðið á hverjum tíma og fyrir okkur Íslendinga er hlutverk þeirra einnig sérlega brýnt þegar kemur að íslenskri tungu og menningu. Okkar fyrsta úrlausnarefni er að styrkja rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla og ég fagna því að geta í dag kynnt frumvarpsdrög sem ég tel að muni stuðla að öflugri fjölmiðlun hér á landi,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra. 

Við samningu frumvarpsins var m.a. byggt á skýrslu nefndar um rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla, greinargerð fjölmiðlanefndar um sama efni, hagrænni skoðun á rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla hér á landi og yfirgripsmikilli greiningarvinnu sem unnin var í samstarfi við sérfræðinga á sviði fjölmiðla. Frumvarpið sækir að hluta fyrirmynd í sambærilega löggjöf á hinum Norðurlöndunum, einkum Danmerkur og Noregs um opinberan stuðning og ívilnanir til einkarekinna fjölmiðla. Einnig var höfð hliðsjón af íslenskri löggjöf um tímabundnar endurgreiðslur og stuðning á afmörkuðum sviðum.

Ráðgert er að frumvarpið verði lagt fram á Alþingi í vor. 

Meginefni frumvarpsdraga
• Komið verði á fót nýju stuðningskerfi fyrir einkarekna fjölmiðla hér á landi vegna kostnaðar sem fellur til við miðlun frétta, fréttatengds efnis og umfjöllunar um samfélagsleg málefni. Styrkirnir verði í formi endurgreiðslu á allt að 25% af hluta ritstjórnarkostnaðar. 
• Hámarksfjárhæð stuðnings til hvers umsækjenda verði 50 milljónir kr. á ári.
• Mögulegt verði að veita staðbundnum miðlum viðbótarendurgreiðslu.  
• Ráðgert er að framlag ríkisins nemi 300-400 milljónum kr. á ári. 


Helstu forsendur stuðnings
• Aðalmarkmið fjölmiðils skal vera miðlun frétta, fréttatengds efnis og umfjöllun um samfélagsleg málefni.
• Fjölmiðill skal hafa veitt fullnægjandi upplýsingar um eignarhald og yfirráð.  
• Efni fjölmiðilsins skal vera fjölbreytt og fyrir allan almenning á Íslandi.
• Prentmiðlar skulu koma út að lágmarki fjörutíu og átta sinnum á ári. Netmiðlar, hljóð- og myndmiðlar og aðrir sambærilegir miðlar skulu miðla nýju efni daglega.
• Ritstjórnarefni skal að lágmarki vera 40% af því efni sem birtist í prentmiðlum sem dreift er endurgjaldslaust. Ritstjórnarefni í öðrum prentmiðlum og netmiðlum skal að lágmarki vera helmingur af birtu efni. 
• Einn sjötti hluti ritstjórnarefnis skal byggja á sjálfstæðri frétta- eða heimildaöflun. 
• Starfsmenn í fullu starfi skulu vera að lágmarki þrír (eða einn hjá staðbundnum miðlum).  
• Fjölmiðill hafi starfað óslitið í tólf mánuði eða lengur fyrir þann tíma er umsókn um endurgreiðslu berst til fjölmiðlanefndar.
• Fjölmiðill sé ekki í vanskilum við opinbera aðila eða lífeyrissjóði.

Endurgreiðsluhæfur kostnaður og endurgreiðslur
Gert er ráð fyrir að endurgreiðsluhæfur kostnaður verði bundinn við beinan launakostnað blaða- og fréttamanna, ritstjóra og aðstoðarritstjóra, myndatökumanna, ljósmyndara og prófarkalesara auk verktakagreiðslna fyrir sömu störf. Hlutfall endurgreiðslu verði að hámarki 25% af kostnaði sem fellur til við öflun og miðlun frétta, fréttatengds efnis og umfjöllun um samfélagsleg málefni, þó aldrei hærri en 50 milljónir kr. til hvers umsækjanda vegna síðastliðins árs. Þá kveður reglugerð m.a. á um heimild til að veita staðbundnum fjölmiðlum viðbótarendurgreiðslu.

Framkvæmd, gildistaka og endurskoðun
Fyrirhugað er að fjölmiðlanefnd sjái um framkvæmd endurgreiðslunnar og að kostnaður við hana verði tekinn af árlegum fjárveitingum til verkefnisins. Lagt er til að lögin taki gildi 1. janúar 2020 og endurgreiðslur miðist við rekstrarárið 2019. Lögin verði endurskoðuð fyrir 31. desember 2024.

Ávinningur
Þess er vænst að stuðningur við einkarekna fjölmiðla verði hvatning til aukinnar framleiðslu á vönduðu og faglegu fréttaefni á íslensku, þar með talið verkefna á sviði rannsóknarblaðamennsku. Ráðgert er að stuðningurinn renni styrkari stoðum undir rekstur héraðsmiðla og auki sjálfstæði minni fjölmiðla t.d. gagnvart auglýsendum. Öflugir fjölmiðlar eru einnig nauðsynleg forsenda þess að hægt sé að sporna gegn útbreiðslu falsfrétta og upplýsingaóreiðu. Fjölmiðlar leggja sitt af mörkum til að viðhalda og efla íslenska menningu og tungu. 

Mat á áhrifum og árangri
Úttekt verður gerð á áhrifum og árangri stuðnings við einkarekna fjölmiðla fyrir lok árs 2023. Í því sambandi skal m.a. kanna hvort stuðningskerfið hefur haft í för með sér aukið framboð frétta og fréttatengds efnis einkarekinna fjölmiðla og hvort starfsfólki á ritstjórnum fjölmiðla hafi fjölgað.

Rekstrarumhverfi fjölmiðla: Tillögur nefndar um bætt rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla

Rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla: greinargerð fjölmiðlanefndar

Bætt rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla: hagræn skoðun 

Kampen om reklamen – skýrsla Nordicom

Den Nordiske mediemodel – samantekt unnin fyrir Norrænu ráðherranefndina.

Glærukynning ráðherra frá kynningarfundi