Fjölmiðlafrumvarp veltur á breytingu á fjármögnun RÚV

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Andstaða við boðað fjölmiðlafrumvarp Lilju Alfreðsdóttur menntamálaráðherra er mikil í þingflokki Sjálfstæðisflokksins og vandséð að nægur stuðningur sé við framlagningu þess að óbreyttu.

Þetta herma heimildir Viljans. Einstakir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa látið skýrt í ljós, að þeir muni ekki ljá fjölmiðlafrumvarpinu stuðning sinn nema samhliða liggi fyrir aðgerðir um að færa Ríkisútvarpið af auglýsingamarkaði.

Er það mat þingmanna Sjálfstæðisflokksins að boðaður stuðningur, sem felst í fjölmiðlafrumvarpinu, sé svo smávægilegur að hann breyti í reynd litlu sem engu meðan RÚV sé áfram leyft að gnæfa yfir aðra aðila í harðri samkeppni á auglýsingamarkaði, en njóti áfram milljarða forgjafar með nefskatti.

Í þessu ljósi ber að skoða áherslu menntamálaráðherra nú á að breyta fjármögnun RÚV til framtíðar. Hún veit að í slíkum tillögum felst um leið grænt ljós á stuðning við eitt stærsta málið í hennar ráðherratíð.

Þingmenn Sjálfstæðisflokksins leggja áherslu á að bæði málin verði afgreidd samhliða, ella liggi bæði.